149. löggjafarþing — 83. fundur,  25. mars 2019.

umbætur á leigubílamarkaði.

617. mál
[16:58]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Herra forseti. Ég þakka málefnalega umræðu um þetta mál og vil bara taka undir í mínum lokaorðum að það er mikilvægt að við tökum svolítið á þessum framtíðarmöguleikum í löggjöfinni. Á sama hátt og við erum með í umferðarlögunum ákvæði um sjálfkeyrandi bíla þótt þeir séu ekki komnir, en við sjáum fyrir okkur að þeir muni koma, þá þurfum við líka í löggjöf um leigubíla að horfa á þá þróun sem getur þar orðið með pantanaþjónustu, deilibílanotkun og slíku, sem hluta af almenningssamgöngukerfi okkar. Ég vonast til að þetta komi allt saman þar skýrt fram. Ég ítreka aftur að við erum með heildarendurskoðun frá starfshópi sem í voru bæði hagaðilar og aðrir aðilar, sem er auðvitað grundvöllur löggjafarinnar. En við horfum líka á þær breytingar sem aðrar þjóðir eru að gera til þess að takast á við hina óvæntu þróun í framtíðinni.

Og svo varðandi græna leigubíla getur formaður Framsóknarflokksins ekki verið annað en ánægður með þá góðu ábendingu. Það væri glæsilegt ef allir bílarnir yrðu grænir, ekki bara á litinn heldur líka í tengslum við loftslagsmál.