149. löggjafarþing — 83. fundur,  25. mars 2019.

áhrif hvalveiða á ferðaþjónustu.

612. mál
[17:10]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég ætlaði aðeins að koma upp á og láta ljós mitt skína í þessu máli. Fyrir mér er þetta ósköp einfalt. Við erum með fisktegund í hafinu sem eru hvalir og … (Gripið fram í: Þetta er ekki fiskar.) (Gripið fram í: Þetta eru spendýr.) — Jæja, þetta eru fiskar líka. (Gripið fram í: Nei. Spendýr. Mikill munur.) Gott og vel, ræðutíminn er að fara í þetta hjá mér.

Hafrannsóknastofnun hefur gefið út ráðgjöf til ráðherra um hvalveiðar. Ráðherra hefur gefið út að hann fer eftir því sem stofnunin ráðleggi og síðan sé það undir þeim komið sem gera út eða reka fyrirtæki hvort þeir kæri sig um að gera út á þetta og hvort það borgi sig. Ég mæli eindregið með því vegna þess að mér finnst bæði langreyðarkjöt og annað hvalkjöt mjög góður matur (Forseti hringir.) og það vantar á íslenskan markað.

(Forseti (BN): Forseti er sammála hv. þingmanni um að allir sem hafa sporð séu fiskar.)