149. löggjafarþing — 83. fundur,  25. mars 2019.

áhrif hvalveiða á ferðaþjónustu.

612. mál
[17:12]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég er greinilega í lúxushópnum því að það vildi svo til í gær að ég var í fermingarveislu og þar var boðið upp á hvalkjöt. Ég hélt reyndar að um væri að ræða nautacarpaccio en það var víst hvalur og bragðaðist alveg ágætlega.

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þessa fyrirspurn og umræðu sem augljóslega er þörf. Ég er sammála því að árið er 2019 og við eigum ekki að veiða dýr sem eru í útrýmingarhættu. Við eigum ávallt að hlusta á vísindamenn og huga að stofnum í kringum landið. Ef niðurstaða þessa aðila er sú að það sé í lagi að veiða eða nýta einhverja dýrategund þá finnst mér sjálfsagt að gera það og við eigum ekki að hlusta á litla hagsmunahópa úti í heimi sem eru að berjast fyrir einhverju. Hvað kemur næst? Hvað með hestinn okkar? Það er fjöldi fólks sem kemur hingað til lands til að horfa á hestasýningar og njóta íslenska hestsins. Á sama tíma er hann líka borðaður. Hvað með lömbin okkar? Hvað með selveiðar Grænlendinga?

Virðulegur forseti. Ég held að full ástæða sé til þess að við stöndum vörð um sjálfstæði okkar í því að taka ákvarðanir um það hvernig við (Forseti hringir.) nýtum náttúruauðlindir okkar, hvort sem þær eru lifandi eður ei. Ef það er í lagi að veiða hvali samkvæmt vísindaniðurstöðum (Forseti hringir.) eigum við að sjálfsögðu að gera það og það á ekki að vera fyrir einn ákveðinn aðila eða fyrirtæki heldur fyrir þjóðina.