149. löggjafarþing — 83. fundur,  25. mars 2019.

áhrif hvalveiða á ferðaþjónustu.

612. mál
[17:15]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Einhvern veginn þróaðist umræðan um þessa ágætu fyrirspurn í umræðu um smekk einstakra þingmanna á kjötafurðum. Það þótti mér dálítið einkennilegur viðsnúningur. Ég er alveg viss um að það er ýmis kjötvara sem við leggjum okkur ekki venjulega til munns sem er ágæt á bragðið. Sjálfur hef ég borðað lóu sem er býsna góð á bragðið, en ekki veiðum við hana. Sumum þykja hundar afbragðsmatur, en við erum ekki að taka afstöðu til þess hvort rétt sé að nýta þær tegundir.

Ég þakka fyrirspyrjanda og hæstv. ráðherra fyrir svarið. Hér er tæpt á máli sem við hljótum, alveg sama hvað okkur finnst, að þurfa að taka alvarlega og ræða. Eru áhrif á ferðaþjónustuna og og hver eru þau þá? Þurfum við að taka afstöðu til þess þegar við tökum afstöðu til þess hvort leyfa eigi hvalveiðar? Um það snýst umræðan, ekki um smekk manna á kjöti.