149. löggjafarþing — 83. fundur,  25. mars 2019.

aðgerðir gegn kennitöluflakki.

670. mál
[17:30]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa fyrirspurn og þakka fyrirspyrjanda áhuga á þessu máli. Ég get glatt hann með því að hann þarf ekki eftir neinu að bíða vegna þess að mál þessa efnis liggur nú þegar fyrir Alþingi. Það er núna í nefnd. Miðflokkurinn flutti þetta mál nú á haustdögum. Í því máli er m.a. ákvæði um að þeir sem verða fyrir því að verða gjaldþrota þrisvar sinnum á 18 mánuðum fái ekki að stýra fyrirtækjum næstu tvö ár á eftir. Þetta er mjög skilvirkt, mjög skýrt og mjög einfalt og ég fagna því að eiga hér góðan liðsmann við þetta frumvarp því að ég efast ekki um að hv. þm. Guðjón S. Brjánsson mun taka því fagnandi að fylgja þessu frumvarpi okkar.

Nú er nefnilega ekkert annað að gera en að rífa þetta frumvarp út úr nefnd og gera það að lögum. Það er hægt að gera það með undraskömmum hætti. Með þessu er ég ekki að gera lítið úr viðbrögðum ráðherra, sem ég fagna mjög, en ég hygg að frumvarp okkar Miðflokksmanna gangi heldur lengra en frumvarp ráðherrans og verði þess vegna miklu beittara vopn í baráttunni við þann vágest sem kennitöluflakk er.

Ég mun fagna því sérstaklega ef hv. þm. Guðjón Brjánsson veitir þessu liðsinni, þessu góða máli okkar.