149. löggjafarþing — 83. fundur,  25. mars 2019.

aðgerðir gegn kennitöluflakki.

670. mál
[17:31]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum aðgerðir gegn kennitöluflakki og fyrirspurn hv. þm. Guðjóns S. Brjánssonar til hæstv. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Þórdísar K. R. Gylfadóttur. Ég fagna því hér, eins og aðrir hafa gert, að hæstv. ráðherra hyggist beita sér fyrir aðgerðum gegn kennitöluflakki og þessari misnotkun á hlutafélagaforminu. Við Framsóknarmenn höfum áður lagt fram frumvarp þessa efnis. Ég hygg að það sé í líkingu við það frumvarp sem hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson vísaði til hér áðan en fyrrum hv. þm. Karl Garðarsson hafði veg og vanda af því að semja það frumvarp á sínum tíma.

Þetta markmið um að setja jafnvel atvinnurekstrarbann, ég held að það fari vel saman við þær tillögur sem hingað til hafa verið í þessu máli. En ég vil spyrja hæstv. ráðherra í lokin, (Forseti hringir.) því að í svari við fyrirspurn minni um þetta mál kom fram að þetta hefði ekki verið lögformlega skilgreint hingað til og því ekki hægt að leggja mat á afleiðingar af þessu, hvort hann hyggist setja hóp af stað til að meta það.