149. löggjafarþing — 83. fundur,  25. mars 2019.

hvalir.

611. mál
[18:03]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Í áraraðir höfum við Íslendingar tekið mark á ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar varðandi fiskstofna og farið mjög vel eftir þeim og ég sé enga ástæðu til þess að það sé ekki gert þegar hvalir eiga í hlut. Við Hafrannsóknastofnun eru okkar fremstu vísindamenn að störfum sem hafa kynnt sér þessa stofna í þaula. Það hefur komið í ljós að langreyði fjölgar hér í Norðurhöfum, telur rúmlega 100.000 dýr og að taka 200 dýr úr þeim stofni er ekki stórt skarð. Hrefnan er í kringum 45.000 dýr. Norðmenn eru núna að fara að auka hrefnuveiðar. Við höfum ekki veitt undanfarin ár nema einhver 30, 50 dýr, eitthvað slíkt, þrátt fyrir að kvótinn hafi verið hærri, þannig að það er held ég engin áhætta í því að veiða hval.

Hvað önnur áhrif varðar þá er, eins og fram hefur komið áður í umræðunni, hvalaskoðun með miklum blóma á Íslandi, hefur aldrei verið í betri færum en nú. (Forseti hringir.) Það getur líka verið varhugavert að kippa einu dýri út úr keðjunni og friða það (Forseti hringir.) eins og við höfum náttúrlega séð með friðun refsins á Hornströndum þar sem hvergi heyrist í mófugli og allar syllur sem refurinn kemst að eru tómar af fugli.