149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[13:48]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þessi ágætu orð. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir hans yfirferð hér. Eins og komið hefur fram í máli hans, og reyndar þeirra sem vel þekkja til í hagstjórn í landinu, hafa menn áhyggjur af því hvað framtíðin ber í skauti sér. Það er óvissa varðandi flugrekstur, eins og komið hefur fram, óvissa varðandi niðurstöðu í kjaramálum o.s.frv. Það getur brugðið til beggja vona og ýmsar forsendur sem hér hafa verið lagðar til grundvallar gætu brugðist. Við verðum að búa við það að vita ekki hvað framtíðin ber í skauti sér, hún er óljós í þessum efnum. Hins vegar er afar mikilvægt að fyrir liggi skýrar línur um það hvernig ríkisstjórnin hyggst bregðast við gangi það eftir að þessi óvissa raungerist.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvernig brugðist verði við hvað varðar tekjuhlið ríkissjóðs ef það gengur eftir að fráviksspáin í áætluninni verði nær því sem gerist en ekki spá Hagstofunnar. Hvað sér hæstv. ráðherra fyrir sér í því, til hvernig ráðstafana verður gripið og hvar þá helst? Væntanlega verður það í einhvers konar niðurskurði og hverjir koma þá til með að þurfa að bera hann?