149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[14:04]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi varðandi málefnasvið 34, sem er almennur varasjóður og sérstakar fjárráðstafanir. Það er rétt að á síðari hluta áætlunartímabilsins eru þar færðar inn mjög háar fjárhæðir, sem felur það í sér að menn hafa ekki ráðstafað út á málefnasviðin vegna þess að við erum að horfa tiltölulega langt til framtíðar, heldur láta frekar þar við sitja á þessum tímapunkti að raða ekki nákvæmlega inn á málefnasviðin á fimmta ári héðan í frá heldur setja inn á almenna varasjóðinn og segja: Þarna er þá töluvert mikið svigrúm til að grípa óvissuna sem kann að raungerast.

Að öðru leyti hvað varðar laun og verðlag erum við með, fyrir utan málefnasviðin, sérstakan lið sem heitir Uppsafnaðar áætlaðar launa- og verðlagsbreytingar, frá árinu 2019. Þar inni eru allar launabreytingar inn í framtíðina eins og þeim er spáð. Þannig að á hverju og einu málefnasviði er þá launastokkurinn eins og hann er í dag á föstu verðlagi út allan tímann og öllum spáðum breytingum á launaliðum og verðlagsbótum er komið fyrir í öðrum lið sem er fyrir utan málefnasviðin.