149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[14:37]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er almennt séð gríðarlega mikilvæg umræða. Hún er mikilvæg vegna þess að við erum að ræða þetta í raun og veru í fyrsta skipti eftir tiltölulega nýsamþykkt lög. Setjum þetta bara í það samhengi sem við höfum. Við höfum það samhengi núna að þegar ríkisstjórnin var mynduð árið 2017 vorum við að gera stefnu langt til framtíðar litið. Við vorum með hagspár í höndunum og við sögðum: Ja, okkur sýnist að á árinu 2020, sem var þá eftir rúmlega tvö almanaksár, verði hagvöxtur með einhverjum tilteknum hætti. Og miðað við það sem okkur sýnist að verði eftir rúmlega tvö ár, þ.e. staðan í hagkerfinu, þá sýnist okkur mátulegt að miða við að ríkið skili 0,9% afgangi. Þetta er samhengi hlutanna. Þannig samþykktum við fjármálastefnuna.

Þess vegna segi ég að ef menn koma hingað upp og segja að við séum allt of bjartsýn, ja, við erum enn þá bara að standa við stefnuna. Og það gengur vel upp miðað við þær hagspár sem við höfum í höndunum. En við þurfum sannarlega að ræða saman ef meiri háttar efnahagsleg áföll verða, ef undirliggjandi forsendur áætlunarinnar breytast, sem hefur ekki enn gerst, þá myndi það vera mín sýn á þá stöðu að við ættum að lækka afkomumarkmiðið. Ég tel að engin rök séu fyrir því að stefna að 30 milljarða afgangi hjá ríkissjóði ef hagvöxtur hefur dregist saman eða enginn hagvöxtur sé jafnvel í landinu.

Ég bendi á þetta vegna þess að þetta skiptir máli því að þarna eru tæplega 30 milljarðar í svigrúm til að bregðast við. Þannig er þetta einmitt hugsað. Þess vegna hefur skipt svo miklu máli að leggja upp með góðan afgang á ríkisfjármálunum þegar vel gengur.