149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[15:08]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Ég verð samt að segja að það kom mér verulega á óvart að heyra Samfylkinguna tala niður væntingar hjúkrunarfræðinga til launahækkana, því að það er auðvitað ekki hægt að leggja annan skilning í þau orð sem hér voru sögð þegar beinlínis er talað um það að hér verði ekki staðið við samninga ef þeir verði umfram það sem gert er ráð fyrir.

Það er ævinlega svo að við gerum auðvitað ráð fyrir einhverju tilteknu, hvort sem það varðar launamál eða annað, eins og hv. þingmaður þekkir sem fyrrverandi fjármálaráðherra, að við göngum út frá þeim spám sem hér liggja undir, eins og sagt hefur verið ítrekað, þ.e. spá Hagstofunnar sem er mánaðargömul. Við höfum staðið við samninga, þ.e. ríkið, fram til þessa ef þeir hafa verið gerðir þrátt fyrir að þeir hafi verið umfram forsendur sem ríkisstjórn á hverjum tíma hefur gefið sér.

Mér finnst þetta því svolítið áhugavert að hlusta beinlínis á það að hér megi hjúkrunarfræðingar, já, og eiginlega bara allmargir eiga von á því að lepja dauðann úr skel verði þessi ríkisfjármálaáætlun að veruleika. Um það get ég ekki verið sammála.

Eins og kom fram hjá hæstv. fjármálaráðherra áðan er engin aðhaldskrafa, t.d. á bótakerfi almannatrygginga, atvinnuleysistrygginga og sjúkratrygginga á næsta ári. Og síðar í áætluninni ekki heldur á heilbrigðisstofnanir og öldrunarstofnanir til að mynda, skólana, dómstólana, bótakerfi og sjúkratryggingar, þannig að það er ekki hægt að segja að það sé almennur 2% niðurskurður, eins og kom fram í máli hv. þingmanns.

Líka er vert að hafa í huga að ef við þurfum að bregðast við, ef staðan verður þannig að við þurfum að bregðast við vegna einhverra áfalla í efnahagslífinu, þá verðum við að huga að hugtakanotkun. Ég meina, við erum þá fyrst og fremst að draga úr útgjaldaaukningu en ekki að skera niður, því að útgjaldaaukningin (Forseti hringir.) hefur, eins og hv. þingmaður veit, vaxið töluvert í tengslum við (Forseti hringir.) landsframleiðslu.