149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[15:16]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju Harðardóttur fyrir prýðisræðu.

Hv. þingmaður hóf ræðu sína á því að tala um brostnar forsendur. Það er eðlilegt að við ræðum óvissuna sem uppi er í efnahagsmálum og það er gert í greinargerð með áætluninni. Ég vil ekki taka svo sterkt til orða, eins og hv. þingmaður gerði, að segja að forsendur fyrir áætluninni séu brostnar.

Þvert á móti er sá lagarammi, sú lagaumgjörð um opinber fjármál, til þess fallinn að við mótum áætlanir til að fá skýrari mynd, þegar við erum að takast á við óvissuástand í hagkerfinu, sem verður alltaf. Það verða búhnykkir, það verða brestir og þetta er kraftmikið umhverfi sem breytist dag frá degi. Við höfum ekki öll ráð í hendi með það. Atvinnulífið tekur ákvarðanir frá degi til dags. Hið alþjóðlega efnahagsumhverfi tekur sínar ákvarðanir. Við búum við kraftmikið hagkerfi og þess vegna erum við með lög um opinber fjármál í þessu áætlunarferli, í þessari umgjörð. Það er vel.

Þess vegna höfum við skýrari mynd af því sem við erum að fást við. Það er mikilvægt að það komi fram. Það má síðan vel vera í umfjöllun hv. fjárlaganefndar, og hv. þingmaður aðstoðar okkur þar í hv. fjárlaganefnd því hún á sæti þar. Við munum alveg örugglega kalla eftir viðbótarupplýsingum, aukasviðsmyndum og greiningum sem geta gagnast og mögulega leitt til breytinga ef tilefni er til. Ég er tilbúinn í þá vinnu með hv. þingmanni. Ég er þá í fyrra andsvari bara að ræða þessar brostnu forsendur.