149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[15:40]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hafði einmitt áhuga á þessu. Er það þá staðfesting á því að þessi viðbót í almenna varasjóðinn sé í rauninni til að bregðast við óvissu í kjaramálum? Þá væri hægt að grípa til þess sem er eitt af hlutverkum almenna varasjóðsins.

Hitt varðandi stefnu stjórnvalda. Ég segi að þetta sýni einmitt skort á stefnu stjórnvalda. Það er ekki eitthvað, að mínu viti, sem við þurfum að gera ágreining um. Ég vísa þá bara í lögin, að það eigi að vera kostnaðarmetin stefna og hver eigi að vera ávinningur þess að velja eina leið umfram aðra. Það er bara í lögunum. Það er ekki eitthvað sem við þurfum að hafa skoðun á. Þetta vantar einfaldlega.

Peningurinn fer beina leið í almenna varasjóðinn. Hann fer ekki í verkefni sem eru útskýrð, kostnaðarmetin og ábatagreind. Þess vegna segi ég: Engin stefna. Peningurinn er ekki innan málefnasviðanna, hann er í almenna varasjóðnum.