149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[16:09]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Einhvern veginn fáum við samt heildarupphæðina. Sett er fram ákveðin krónutala, milljarðar eða milljónir, á hverju málefnasviði. Einhvern veginn komust við að þeirri tölu. Ef það liggur ekkert kostnaðarmat þar á bak við er ég bara eitt stórt spurningarmerki. Og ef það eru kostnaðarmat á bak við, þótt það sé ónákvæmt, af hverju fáum ekki að sjá það? Af hverju höfum við aldrei fengið að sjá það?

Ég vil nefna að ég hef sent fyrirspurnir í gegnum fjárlaganefnd til allra ráðuneytanna. Í fjárlögunum núna síðast komu svör frá nokkrum ráðuneytum. Það koma ekki svör í fjármálaáætlun. Ég veit ekki hvort það eru komin svör núna, væntanlega eru þetta sömu spurningar sem við sendum. En við þurfum að geta summað upp. Það vantar t.d. útgjaldabrúna núna, sem var ekki í fjármálaáætlun, hún kemur í fjárlögunum. En það væri áhugavert að sjá þetta sett saman á skýrari hátt. Ég upplifi þessar 469 bls., stærstu fjármálaáætlun hingað til, sem rosalega mikið af orðum til þess að reyna að fela að ekki sé neitt þar á bak við. Ef það væri ef eitthvað nákvæmt að baki væri það sett fram í staðinn fyrir að eyða í þetta mörgum blaðsíðum.

Það er svolítið vandamál. Breytingarnar sem hv. þingmaður talaði um á fyrri fjármálaáætlun og núverandi fjármálaáætlun, þar sem bætt er við lengingu fæðingarorlofs, hefði það ekki átt að koma í síðustu fjármálaáætlun sem stefna? Við erum að reyna að setja stefnu til fimm ára, óháð því hvort það komi kosningar inn á milli eða eitthvað því um líkt, til að fá einhverja festu, til að fá stöðugleika. En við erum enn þá að hjakka í sama farinu með eitt og eitt í einu. Maður veit ekki hversu mikið er að marka næstu fjögur ár í fjármálaáætluninni þegar allt kemur til alls. Hvað ef það dettur inn (Forseti hringir.) á næsta ári eitthvað um að lengja fæðingarorlofið enn meira? Hvað þá? Hvað með almenna varasjóðinn? Af hverju er hann næstum því að fjórfaldast?