149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[16:12]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2020–2024. Ég vil byrja á því að segja: Mér finnst gott fyrirkomulag á þessari umræðu, virðulegur forseti, enda með svipuðu sniði og reynt var þegar við ræddum áætlunina 2019–2023, fyrir réttu ári síðan. Það má segja að við séum nú í fyrsta skipti í raun að komast hringinn í kringum það áætlunarferli sem mælt er fyrir um í lögum um opinber fjármál, þ.e. að sama ríkisstjórn uppfæri gildandi áætlun. Það er áætlunin 2019–2023 og byggir á fyrirliggjandi fjármálastefnu og þeim skilyrðum sem stefnan setur um afkomumarkmið, um efnahag, eignir og skuldir fyrir hið opinbera í heild og opinbera aðila og greint er frá í áætlun til næstu fimm ára um þróun tekna og þróun gjalda.

Ef við skoðum áætlunarferlið, sem við höfum í raun aldrei komist í gegnum vegna tíðra kosninga, þá byrjaði hæstv. ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur á því að leggja fram fjárlög fyrir árið 2018 sem samþykkt voru í desember 2017 og samhliða því í raun ríkisfjármálastefnu sem gilda á út kjörtímabilið og samþykkt var í mars 2018, og jafnframt áætlanir eins og sú sem við ræðum hér og fjárlög byggja á. Gildandi ríkisfjármálaáætlun 2019–2023 var síðan í kjölfarið samþykkt 8. júní 2018. Erum við nú að ræða uppfærslu á þeirri áætlun.

Í millitíðinni höfum við rætt skýrslu ráðherra, sem er mikilvægur þáttur í þessu ferli. Í 62. gr. laga um opinber fjármál, sem tilheyrir þeim kafla laganna sem snýr að reikningsskilum og skýrslugerð segir, með leyfi forseta:

„Hver ráðherra skal eigi síðar en 1. júní ár hvert birta ársskýrslu um síðasta fjárhagsár. Þar skal gera grein fyrir niðurstöðu útgjalda innan málefnasviða og málaflokka hans og hún borin saman við fjárheimildir fjárlaga, auk þess sem greint skal frá flutningi fjárheimilda skv. 30. gr.“ — Í 30. gr. er mælt fyrir um flutning heimilda milli ára og er hluti framkvæmdakafla fjárlaga. — „Þá skal greina frá fjárveitingum til einstakra ríkisaðila og verkefna og meta ávinning af ráðstöfun þeirra með tilliti til settra markmiða og aðgerða skv. 20. gr.“

Þar er mælt fyrir um að hver ráðherra setji fram stefnu fyrir þau málefnasvið og málaflokka sem hann ber ábyrgð á til fimm ára og er hluti fjárlagakafla laganna.

Það er mikilvægur liður í ferlinu samkvæmt lögunum. Í hv. fjárlaganefnd hefur þegar verið farið yfir þessar skýrslur fyrir árið 2017 með hverju ráðuneyti fyrir sig. Árið 2017 var hins vegar við völd önnur ríkisstjórn en nú og því ekki sama tenging, má segja, við umfjöllunina. Því verður það í rauninni ekki fyrr en við förum yfir skýrslu ráðherra fyrir árið 2018 að við náum að loka þessu ferli, frá stefnu til aðgerða. Ég bind miklar vonir við að við fáum þá það samhengi og yfirsýn yfir ákvarðanir um framkvæmdir og ávinning af stefnu sem nauðsynlegt er fyrir okkur í þinginu.

Mikið hefur verið rætt varðandi efnahagslegar forsendur og nokkuð borið á því í umræðunni að fólk telji að forsendur séu í raun brostnar, og það áður en blekið úr prentsmiðjunni er þornað, eins og hv. þm. Þorsteinn Víglundsson orðaði það. Fleiri hafa haft ýmis orð uppi um þetta. Það er skiljanlegt, það er vissulega til staðar óvissa og um það er fjallað í greinargerð með áætluninni. Þar er tekið fram að einkum ríki óvissa um þrjá þætti. Það er óvissa í flugrekstri og ferðaþjónustu, kjaraviðræður eru í gangi og ekki er fyrirséð hvenær og hvernig niðurstaða fæst í þær viðræður. Óvissa er uppi í alþjóðlegum efnahagsmálum og fréttir hafa komið af því að það dragi úr hagvexti í Bandaríkjunum, svo er það útganga Breta úr Evrópusambandinu og ofan í kaupið finnst engin loðna.

Ég hef fullan skilning á þessum varnaðarorðum. Þau eru nauðsynleg, jafn nauðsynleg og áætlunargerð er tæki til að fá skýra sýn á umhverfi þar sem hlutir eru stöðugt að breytast í umhverfinu og brestir og búhnykkir eru hluti af kraftmiklu efnahagsumhverfi. Við erum að koma út úr miklu hagvaxtarskeiði og hagvöxtur fer vissulega dvínandi. Og auðvitað, eins og alltaf er, standa vonir til þess að hagkerfið nái mjúkri lendingu. Það er jú verkefni okkar m.a. að byggja upp stoðir og ráðstafa opinberu fé með þeim hætti að draga úr sveiflum.

Sú spá sem þessi áætlun byggir á er febrúarspá Hagstofunnar og spáir 1,7% hagvexti, sem er nokkru minni en ráð var fyrir gert í fyrri spám. Það verður alltaf óvissa og efnahagsumhverfi í eðli sínu dínamískt. Einmitt þess vegna eru áætlanir mikilvægar og mikilvægur þáttur ríkisfjármála vegna þess að þar er reynt, út frá gefnum forsendum, að stýra og forgangsraða fjármunum og gefa sem skýrasta mynd af fyrirætlunum, eins og hér, til næstu fimm ára. Að ári liðnu, við næstu uppfærslu, munum við vita eitthvað meira um þessa óvissuþætti, en þá verða aðrir brestir eða búhnykkir handan við hornið. Ef þessir óvissuþættir skýrast frekar á meðan sú umfjöllun sem fram undan er um þessa áætlun á sér stað í þinginu er varla hægt að hugsa sér betri farveg fyrir þessa áætlun en einmitt í þinginu.

Það hlýtur að vera verkefnið fram undan hjá hv. fjárlaganefnd og öðrum fastanefndum um leið og við fjöllum um hana heildstætt og einstök málefnasvið og flokka, að uppfæra hana og gera skynsamlegar og mögulega óhjákvæmilegar breytingar á henni eftir því sem upplýsingar sem við köllum eftir gefa tilefni til. Eftir langt, samfellt hagvaxtarskeið, afgang af fjárlögum og áherslu á niðurgreiðslu skulda hefur það, við þær aðstæður sem við horfum til núna þegar slaknar á í hagkerfinu, reynst vera skynsamleg fjármálastjórn. Það skilar því að viðnámsþróttur er meiri en ella og sterk staða ríkissjóðs gefur okkur færi á að halda áfram á sömu braut uppbyggingar helstu samfélagsinnviða og skila þeim afgangi sem stefnt er að í ríkisfjármálastefnu.

Þar er kveðið á um og stefnt að því að afgangur af heildarjöfnuði, sem mælt hlutfall af vergri landsframleiðslu, eigi að vera rétt innan við 1%, 0,9% fyrir árið 2020, 0,8% fyrir árið 2021 og 2022 og 0,9% fyrir 2023 og svo 1% fyrir árið 2024. Margir hafa gagnrýnt ríkisfjármálastefnuna, m.a. fjármálaráð, að við höfum rígbundið okkur í gólfi stefnunnar sem geri okkur erfitt fyrir þegar við horfum til þessara efnahagsaðstæðna og dvínandi hagvaxtar. Í raun og veru höfum við ekki þurft að horfast í augu við það með þeim hætti þegar hér er mikil uppsveifla eins og við höfum upplifað.

Ástæðan fyrir því að við getum fylgt grunngildum stefnu og áætlunar og þrátt fyrir allt að það dregst saman í frumjöfnuði, er ábyrg fjármálastjórn og niðurgreiðsla skulda með lægri vaxtabyrði og hagstæðari fjármagnsjöfnuði í raun og veru ástæða þess að í þessari áætlun erum við í færum til að halda áfram að byggja upp innviði og vinna á innviðaskuldinni sem hér myndaðist í kjölfar efnahagshruns ásamt því að veita þann aga og aðhald sem nauðsynlegt er í ríkisrekstrinum.

Það er sú staðreynd sem tryggir í raun sjálfbærni og festu ríkisfjármálanna. Þessi áætlun endurspeglar í raun sterka stöðu og festu í stjórn opinberra fjármála. Ég segi það þrátt fyrir að það slakni á í hagkerfinu sjáum við það m.a. á þeim þáttum sem verið er að bæta við gildandi áætlun í forgangsröðun og áherslum hæstv. ríkisstjórnar. Hér horfum við til aukningar í fjárfestingum hins opinbera til samgönguinnviða á meðan fyrirséð er að fjárfestingar í atvinnulífinu dragist saman.

Hér er sett aukið fé í nýsköpun og rannsóknir og þróun, sem er afar jákvætt við þessar aðstæður og afar mikilvægt þegar við horfum til framtíðar, uppbyggingar og hagvaxtar. Við bætum 4 milljörðum við gildandi áætlun í samgönguframkvæmdir, þ.e. við þá 16,5 milljarða sem þar eru fyrir. Þannig að samtals verða þetta um 20 milljarðar.

Verið er að lengja fæðingarorlof í 12 mánuði til viðbótar við hækkun á greiðslum. Hækkun er á stofnframlögum í almenna íbúðakerfið, aukin framlög eru til byggingar hjúkrunarrýma, stuðningur við bókaútgáfu, sem hluti aðgerðaáætlunar hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra um eflingu móðurmálsins, fyrirhugaður stuðningur við fjölmiðla, og svo mætti áfram telja.

Það verður síðan verkefni hv. fjárlaganefndar og annarra fastanefnda að fara ofan í kjölinn á einstökum málefnasviðum og málaflokkum og kalla eftir athugasemdum úr samfélaginu og greina frekar þau áform sem speglast í þessari viðamiklu áætlun. Ég vænti góðs samstarfs við aðrar nefndir um þá vinnu, við ráðuneyti og stofnanir. Hv. fjárlaganefnd mun senda bréf á aðrar nefndir um fyrirkomulag vinnunnar sem við sjáum að er fram undan.