149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[16:28]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Aðeins til að klára það sem við vorum að ræða áðan, um umfang þessarar áætlunar. Þegar ég vísaði í faglegan texta og hagfræðilegan texta þá var ég ekki síst að vísa til mjög vandaðra rammagreina, eins og við höfum kallað eftir, t.d. um fráviksgreiningar og hagsveifluleiðrétta afkomu, rammagrein tvö og þrjú, virkilega góð framsetning og til bóta. Ég myndi ekki vilja missa það úr þessari áætlun. (Gripið fram í: Sammála.)

Varðandi varasjóðinn þá er auðvitað óvissa og hann ber að nýta þegar verða einhvers konar skakkaföll og óvænt atvik. Svo er það auðvitað alltaf spurning hversu stór slíkur varasjóður ætti að vera.