149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[16:31]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Víglundssyni fyrir spurninguna og andsvarið. Já, ég vísaði í orð hv. þingmanns vegna þess að hann dró mjög sterklega fram þá staðreynd að óvissa er uppi. Henni er flaggað, m.a. í greinargerð með áætluninni sem við erum að fjalla um, á sama tíma og ég bendi á hversu mikilvæg þessi lagaumgjörð er okkur við óvissuaðstæður sem eru alltaf uppi. Þess vegna erum við einmitt að fara með ríkisfjármálin í þetta áætlanaferli, til þess að hafa skýrari mynd í óvissunni. Ég er sammála hv. þingmanni um að þær sviðsmyndir sem dregnar eru upp í greinargerðinni eru mjög til bóta og það er von að spurt sé hvort bregða eigi frá stefnu, hvort við séum þvinguð til að bregða frá stefnu hæstv. ríkisstjórnar um þau útgjöld sem við erum sannarlega að auka að raungildi til velflestra málefnasviða og málaflokka eða hvort falla eigi frá skattalækkunum.

Við erum nú þegar í tvennum fjárlögum búin að fylgja stefnunni eftir með lækkuðum álögum á atvinnulíf og einstaklinga og við erum ekki að falla frá því. Með skynsamlegri og ábyrgri hagstjórn undanfarinna ára í ríkisfjármálum, þrátt fyrir raunaukningu útgjalda um langt skeið, erum við að greiða niður skuldir og með 40 milljarða kr. lægri vaxtabyrði erum við í færum til að halda stefnunni þó með því að vera með innbyggt aðhald í ríkisrekstri um einhverja 5 milljarða.