149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[16:57]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður má eiga það að hann gagnrýndi á sínum tíma, og hefur verið samkvæmur sjálfum sér í því, að fjármálastefnunni var breytt til lækkunar á afkomumarkmiðum. En það hefði í sjálfu sér ekki endilega falið í sér loforð um að menn myndu ekki fara nærri hærri afkomumarkmiðum. Ég held að við værum í vondum málum í sjálfu sér, sérstaklega miðað við stöðuna eins og hún er í dag, ef við hefðum sett okkur enn stífari afkomumarkmið eins og hafði verið gert í ríkisstjórninni sem starfaði á árinu 2017 eftir kosningarnar 2016 fyrir árið 2020, a.m.k. held ég að sú staða kunni að koma upp, ef áhyggjur hv. þingmanns raungerast, að það hefði verið glórulaust að vera með enn meiri afgang.

Mín skoðun er sú að ef þetta allt gerist, sem ekki er orðið og eru bara enn þá spár og við hljótum að þurfa að byggja umræðuna á gildandi hagspám, sem menn eru að lýsa áhyggjum af er ekkert vit í því að stefna að 0,9% (Forseti hringir.) afkomu ríkissjóðs, 30 milljarða afkomu í hagkerfi sem er búið að missa allan vöxt.