149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[17:00]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Víglundssyni fyrir prýðisræðu eins og hans er von og vísa og fór hann yfir hagsöguna í þessu og efnahagslegar forsendur. Við ræddum reyndar þessar forsendur fyrr í andsvari hv. þingmanns við ræðu mína.

Það er rétt sem hv. þingmaður segir í ræðu sinni að margir hafa gagnrýnt ríkisfjármál í gegnum tíðina fyrir að vera sveifluaukandi við kringumstæður góðæris eða samdráttar, eins og við upplifum núna. Sem dæmi var raunvöxtur útgjalda hvað mestur árið 2017 og toppur hagsveiflunnar 2016. Við erum einhvern veginn alltaf að kljást við þetta, að ýkja sveiflurnar í hvora átt. Það er vilji til þess, m.a. með lagaumgjörð um opinber fjármál, að reyna að bæta úr þessu og horfast í augu við hlutina eins og þeir eru og horfa við okkur. Það er sannarlega gert í þeirri áætlun sem við erum að ræða. Það kom m.a. fram í ræðu hv. þingmanns að með greiningum eru óvissuþættirnir allir teknir fram í greinargerð. Það má vel vera að í umfjöllun hv. fjárlaganefndar og annarra fastanefnda fram undan, eins og hv. þingmaður kom inn á, gerum við einhverjar breytingar ef tilefni er til.

Ég vil hins vegar spyrja hv. þingmann: Athyglisvert er að samneyslustigið hefur haldist í kringum 11%, sem er auðvitað sterk vísbending um að við höfum átt fyrir þessari raunaukningu útgjalda. Er þá ekki mikilvægt að horfa til þess þegar við tökum ákvörðun um ráðstöfun fjármuna?