149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[17:05]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Spurning mín sneri að samneyslustiginu og hv. þingmaður dró hér fram, sem er rétt, virkni þessara svokölluðu sjálfvirku sveiflujafnara í hagkerfinu, sem er mikilvægt að fái að virka. Það er ekki endilega víst að þeir sem aðhyllast þessa keynesísku hagstjórn, að þurfa endilega alltaf að auka útgjöldin bara til að bregðast við samdrættinum — tímasetningar eru vandasamar og þetta er auðvitað svolítið viðfangsefni hagfræðinnar jafnframt. En nei, ég var ekki að segja að þetta væri réttlæting á því að við værum að auka útgjöld, alls ekki, þvert á móti, heldur fyrst og fremst að draga fram sterka stöðu ríkissjóðs og við eigum fyrir því sem við erum að auka útgjöld til. Svo má nefna í því samhengi að á þessu tímabili er ekki bara staða ríkissjóðs sterk heldur er staða heimilanna og fyrirtækja líka sterkari en áður til að takast á við samdrátt.