149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[17:40]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið, 6 kr. af hverjum 10 fara í heilbrigðis- og velferðarmál. Hvernig getum við breytt því? Hvernig gætum við hugsanlega séð 5 kr. af hverjum 10 eða jafnvel 4 kr.? Hvernig getum við gert það? Hvernig getum við unnið í því að koma til móts við samfélagið með forvörnum og alls konar aðgerðum, stíga út fyrir rammann í stað þess að halda alltaf áfram að setja hægri fótinn fram fyrir þann vinstri og breyta í raun litlu í áherslum til þess að sjá alvörubreytingar í rétta átt? Hvað getum við gert til þess að sjá alvörubreytingar?

Ég get ekki annað en talaði um krónu á móti krónu. Það er sagt að við ætlum að afnema þetta í áföngum og gera hitt og þetta í áföngum. Þann 1. janúar 2017 var þetta tekið af eldri borgurum, bara með einu pennastriki, alveg eins og það var sett á hér eftir hrun með einu pennastriki af vinstri stjórn þess tíma, eða þeirri stjórn sem þá sat.

Ég er að segja: Við getum tekið af þessa krónu á móti krónu skerðingu. Allt sem þarf er einfaldlega viljinn. Það er ekki flóknara en það. Og þessir 4 milljarðar sem var síðan búið að lækka niður í 2,3 milljarða sem átti að setja inn í kerfið af því það var verið að bíða eftir að sjá hverju fram yndi og annað slíkt, það veit enginn enn þá hvar þeir eru staddir. Það er ekkert komið fram um að verið sé að setja það nákvæmlega þarna í þennan málaflokk sem lýtur að krónu á móti krónu afnámi. Það er ekkert komið á hreint. Það eru ákveðnir grundvallarþættir í öllu sem við verðum að byggja heildstætt upp og reyna að gera okkur grein fyrir því hvort við erum að koma eða fara með það sem við erum að sigla af stað með.