149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[17:58]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það hefur verið talað dálítið um svona hringrás og hagspá fjármálaáætlunar, þ.e. að það sem stjórnvöld gera með fjármálastefnu, með fjármálaáætlun, með fjárlögum, hefur áhrif á hagspána og hagvöxtinn í rauninni og ýmislegt svoleiðis.

Það sem ég hef áhuga á að vita er hver áhrif þessarar fjármálaáætlunar verða á þær horfur sem við sjáum fyrir okkur núna miðað við hvernig hagspáin er. Er þetta til að styrkja stöðuna í rauninni hagvaxtarlega séð eða erum við að ýta undir niðursveifluna eins og hún hefur litið út í hagspám núna undanfarið? Ég myndi vilja vita hvort fjármálaáætlun sé að ýkja niðursveifluna eða bremsa hana af og ég myndi vilja hafa einhvers konar greiningu á því í fjármálaáætluninni og jafnvel í hagspánni þegar hún kemur hver stefna stjórnvalda er og hvaða áhrif hún hefur á hagvöxtinn.