149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[18:05]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þrátt fyrir áhuga hv. þingmanns á vegasköttum gleðst ég yfir því að hann hafi orðið undir þegar fjármálaáætlun fyrir næstu fimm ár var samin og sérstaklega þegar hugað er að samgöngukaflanum. Ég er ekki talsmaður vegaskatta þó að ég geti tekið undir að skoða þurfi gjaldtöku þegar orkuskiptin hafa átt sér stað, en það er önnur saga.

Annað stórmál sem mér finnst ekki vera tekið nægilega vel á í fjármálaáætluninni er húsnæðistuðningur. Það er talað um að bæta í til að byggja almennar íbúðir og það er ágætt. En heildarhúsnæðisstuðningurinn hækkar ekki þannig að það virðist eiga að taka af vaxtabótum eða öðrum húsnæðisstuðningi til að fjármagna uppbyggingu almennra íbúða. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann telji ekki bagalegt að t.d. tillögur átakshópsins séu ekki fjármagnaðar og ekkert fé sett til að mynda í fyrstu kaup.