149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[18:12]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það stendur yfir endurskoðun búvörusamninga samkvæmt ákvæðum þeirra. Við höldum á niðurstöðu úr endurskoðuðum sauðfjársamningi. Hann liggur fyrir Alþingi Íslendinga. Að því er ég best veit var ekki samið um viðbótargreiðslur inn í þann samning eða hækkun þeirra fjárhæða. Það er að fara í gang endurskoðun samnings um starfsskilyrði nautgriparæktarinnar og ég veit ekki hver niðurstaða þeirra verður frekar en nokkur annar sem þar er.

Hv. þingmaður fjallar um mótvægisaðgerðir vegna niðurstöðu EFTA-dómstólsins. Þær mótvægisaðgerðir, hv. þingmaður, geta í raun og veru verið miklu fleiri og verðmætari í aðgerðum en í fjárhæðum. Ég held að við ættum ekki að tapa svefni yfir því þó að ekki birtist í fjármálaáætlun einhverjar upphæðir til þess að bregðast við með þeim hætti. Það skiptir miklu meira máli hvernig hv. atvinnuveganefnd afgreiðir það mál í þinginu og hvaða leiðarljós hún setur upp (Forseti hringir.) fyrir landbúnaðarráðherra sinn í framhaldi af úrvinnslu málsins og til hvaða mótvægisaðgerða þar verður gripið til á þann hátt að setja inn í reglur o.s.frv.