149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[18:43]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Ég tek nú undir að það skiptir auðvitað miklu máli hvernig þessi umrædda viðbygging mun líta út. Það liggur auðvitað fyrir verðlaunatillaga í þeim málum (SDG: Það er hún sem ég hef áhyggjur af.) — og það er hún sem hv. þingmaður hefur áhyggjur af, kemur hér fram. Ég hef lagt þetta í hendur dómnefndar sem dæmdi þessa hönnun besta, veitti henni 1. verðlaun í þeirri hönnunarsamkeppni sem var haldin og hef mest lagt upp úr því að allt þetta ferli standist skoðun og sé eins gagnsætt og unnt er.

Það er rétt að forsætisráðuneytið hefur ráðist í ýmis verkefni. Ekki bara hefur málaflokkur jafnréttismála færst yfir. Ég nefndi áðan stjórnarskrárendurskoðun sem ég legg mikinn metnað í að við stöndum vel að og við verjum fjármunum í almenningssamráð. Ég er ekki með tölur á takteinum yfir starfsfólk forsætisráðuneytisins og hver staðan er á þeirri tölu frá því að ég tók við og þar til nú. En hana skal ég finna til upplýsingar fyrir hv. þingmann við fyrsta tækifæri.