149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[19:11]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Forseti. Ég er mjög ánægð með þá vinnu sem hefur verið unnin á sviði kynjaðrar fjárlagagerðar. Grunnskýrslan sem hv. þingmaður nefndi sýnir að búið er að vinna mikið starf í að draga saman gögn, en það er þó töluvert misjafnt milli málefnasviða og málaflokka. Þar eru tillögur um næstu skref og er sérstaklega horft á þætti sem einmitt hafa kannski ekki þótt vera endilega það sem manni dettur fyrst í hug þegar talað er um kynjaða fjárlagagerð en eru samt mjög mikilvægir.

Þar er verið að leggja til að í næstu skrefum verði sjónum sérstaklega beint að byggðamálum, samgöngum, atvinnuvegunum og samkeppnissjóðunum. Það er staðreynd þegar við lítum til þeirra sem hafa verið að iðka kynjaða fjárlagagerð að ákvarðanir sem við tökum, t.d. um samgöngumál, geta haft mjög ólík áhrif á kynin því að ferðamynstur kynjanna er ólíkt.

Sömuleiðis má sama segja um atvinnugreinar. Við erum með mjög kynjaskiptan vinnumarkað. Mér finnst að stjórnvöld eigi að fara að setja sér stefnu um það hvernig við getum brotið það upp. Í því (Forseti hringir.) augnamiði getur kynjuð fjárlagagerð haft veruleg áhrif.