149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[19:28]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa athugasemd. Við höfum séð það á undanförnum árum að opinber fjárfesting hefur verið í sögulegu lágmarki. Ef við byrjum bara á fjárfestingarstigi þá hefur opinber fjárfesting verið í sögulegu lágmarki. Horfum til að mynda á samgöngukerfið í landinu, sem ekki aðeins hefur verið vanrækt að halda við, heldur er líka undir mun meira álagi en það var fyrir 10 árum. Það keyra ekki 350.000 manns um vegina á Íslandi. Það fara tvær milljónir um vegina á Íslandi.

Getum við hv. þingmaður ekki verið sammála um það að eftir að skorið var niður hér eftir hrun og ekki farið í viðhald til að mynda á vegum og öðrum samgöngumannvirkjum, í raun og veru allt þar til þessi ríkisstjórn tók við, að það er uppsöfnuð þörf fyrir opinbera fjárfestingu á þessum sviðum?

Við horfum til þess að við erum að auka fjárfestingu á réttum tíma miðað við þróun mála í hagkerfinu. Á sama tíma og atvinnuvegafjárfesting er að minnka, það dregur úr henni, þá kemur hið opinbera inn með aukna fjárfestingu sem fer auðvitað ekki öll í varanlegan rekstur, eins og hv. þingmaður gefur til kynna, heldur er líka verið að ráðast í fjárfestingar sem eru að einhverju leyti einskiptis.

Rekstur ríkisins. Ég get alveg tekið undir með hv. þingmanni. Hins vegar að við eigum alltaf að vera að velta því fyrir okkur hvernig getum við farið betur með fjármuni. Ég nefndi hér áðan dæmi um stafræna þjónustu, að eingöngu það að senda gögn eða póst ríkisins út á rafrænu formi hefur sparað ríkinu hálfan milljarð. Það er sparnaður í opinberri þjónustu með því að nýta tæknina. Þar með er væntanlega hægt að forgangsraða með öðrum hætti, veita fjármuni í þjónustu sem við teljum að skipti máli að veita, en spara um leið á þessu sviði.