149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[20:31]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég verð bara að viðurkenna að ég skil ekki alveg hv. þingmann, að honum finnist umræðan ekki vera skýr eða að það sé eitthvert óþarfaverk að taka umræðu í þinginu um gjaldtöku á vegum. Ég vona að menn eigi eftir að taka margar slíkar umræður um það. Ég veit ekki betur en að Píratar, sem eru í meiri hluta í borgarstjórn Reykjavíkur, séu og hafi verið um langt skeið að ræða það við ríkið að taka upp svokölluð borgarmengunar- og borgargjöld til þess m.a. að standa undir framkvæmdum á vegakerfinu. En ég verð að segja alveg eins og er að ég er svolítið hissa á afstöðu þingmannsins til þessa. Hún er alveg skýr í mínum huga.

Í þessari fimm ára fjármálaáætlun varðandi samgöngur leggjum við fram fjármuni úr ríkissjóði til að byggja upp. En eins fram og kom í máli mínu áðan verður lögð fram ný og endurskoðuð áætlun í haust til næstu fimm ára og ekki er heldur útilokað að að þeim framkvæmdum loknum, í lok þess tímabils, muni menn taka upp einhvers konar notendagjöld til að fjármagna næstu lotu í samgöngum. Það er ekkert útilokað. Það er verið að orða það hér.

Það er líka alveg augljóst að ef við förum í framkvæmdir við Sundabraut, sem eru svo sannarlega á stefnuskrá þess ráðherra sem hér stendur og ríkisstjórnarinnar, og hugsanlega önnur samvinnuverkefni í anda Hvalfjarðarganga og í einstökum framkvæmdum, verður að sjálfsögðu framkvæmt þar og síðan eru gjöld innheimt, þó að það gerist ekki endilega á næstu fimm árum. Þess vegna er það nefnt í fjármálaáætluninni. En ekki eru sýndar þar einhverjar tölur sem skili sér vegna þessa, vegna þess að þeir hlutir liggja hér inni í einhver ár til ákvarðanatöku og síðan framkvæmda. En síðan myndu menn væntanlega greiða það til baka með nákvæmlega sama hætti og Hvalfjarðargöngin þegar þar að kemur.

Það er margt undir, hv. þingmaður. En ég er dálítið hissa á umræðunni um gjaldtöku fyrir vegaframkvæmdir, þar sem hv. þingmaður kemur úr flokki sem situr í meiri hluta í borgarstjórn.