149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[15:10]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Fyrst varðandi afhendingaröryggi og flutningskerfið í heild: Sem betur fer tókst okkur að afgreiða þessa þingsályktunartillögu og ég fagna því mjög að við séum komin á þann stað að vera með slíka þingsályktun í gildi og mörkum okkur stefnu í þeim efnum. Við sjáum það strax að það hefur áhrif á vinnulag Landsnets í forgangsröðun á verkefnum og öðru slíku. Suðurnesjalína tvö, Kröflulína þrjú, Hólasandslína þrjú, Blöndulína þrjú og styrking á sunnanverðum Vestfjörðum — þetta eru allt verkefni sem eru á döfinni og eru meiri háttar fjárfestingar. Þannig að ég myndi segja að það sé nokkurn veginn á áætlun. En auðvitað erum við alltaf með alls konar hindranir í því.

Varðandi þrífösun erum við hér að einblína á ákveðin verkefni. Við erum með hóp að störfum sem er að skila, held ég, nú í vikunni þar sem verið er að opna á nýjar leiðir til þess að komast hraðar í þessa uppbyggingu. Ég held að það sé pólitísk sátt um að reyna að gera það. Það kann að kalla á einhverjar kerfisbreytingar. Ég er mjög opin fyrir því vegna þess að (Forseti hringir.) þrífösun rafmagns er orðin eins og vegir eða ljósleiðarar, þetta eru bara grunninnviðir sem verða að vera til staðar úti um land til að hægt sé að byggja upp atvinnustarfsemi og halda fólki í byggð þar sem það er.