149. löggjafarþing — 86. fundur,  28. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[10:31]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Ég vil fyrst segja um umræðuna um fjármálaáætlun að tilhögun hennar er að mörgu leyti hentug. Gagnlegt er fyrir fulltrúa þingflokka að geta beint að einstökum ráðherrum fyrirspurnum um efni fjármálaáætlunar á málefnasviðum ráðherranna.

Þrátt fyrir að margt sé jákvætt í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er hún engu að síður reist á forsendum sem hætt er við að geti brostið. Ítrekuðum spurningum til ráðherra um viðbrögð við slíkum aðstæðum hefur verið mætt með því að segja að ganga megi á afganginn sem gert er ráð fyrir á rekstri ríkissjóðs. Eins og þetta hefur verið sagt hljómar þetta eins einfalt og að drekka vatn. Svo er samt ekki, enda kallar ákvörðun um slíkt á veigameiri endurskoðun á undirstöðum fjármálaáætlunar en hrist verður fram úr erminni, rétt sisvona. Þetta vita allir sem kynnt hafa sér lög um opinber fjármál. Því er í raun ósvarað á hvaða þjóðfélagshópum mögulegar aðhaldsaðgerðir muni bitna.

Herra forseti. Áætlunin getur ekki verið betri en forsendurnar sem hún er reist á. Við erum að tala hérna um mjög veigamikla þætti sem eins og sakir standa eru í mikilli óvissu. Ber í því sambandi að nefna áhrif af sviptingum í flugrekstri á atvinnu fjölda fólks og á fjölda ferðamanna til landsins á árinu. Sömuleiðis ber að nefna óvissu um niðurstöðu kjaraviðræðna.

Sýnt er að bæði launaforsendur og verðlagsforsendur geta vikið allmikið frá forsendum og jafnvel brostið. Í raun hefur ekki verið gerð grein fyrir því með neinum fullnægjandi hætti í áætluninni hvernig yrði brugðist við ef til að mynda það færi þannig í flugsamgöngum að það yrði umtalsverð fækkun á farþegum til landsins.

Svo vikið sé að fréttum dagsins, svo ógóðar sem þær eru, er erfitt að komast að annarri niðurstöðu en þeirri að fjármálaáætlunin hvíli óneitanlega á mjög veikum grunni.

Herra forseti. Skylt er að viðurkenna að staða ríkissjóðs er að mörgu leyti sterk um þessar mundir. Er sérstakt fagnaðarefni hve hratt hefur tekist að greiða niður skuldir ríkissjóðs, ekki síst vegna óreglulegra tekna eins og stöðugleikaframlaga við uppgjör við kröfuhafa eftir hrunið. Þessi bætta skuldastaðan hefur leyst ríkissjóð úr þeirri nánast óbærilegu stöðu sem ríkti þegar stærsti liðurinn á útgjaldahlið fjárlaga voru greiðslur vaxta af lánum.

En um leið verður að segjast að hin sterka staða ríkissjóðs er alldýru verði keypt þegar haft er í huga að ríkissjóður er mjög háður skatttekjum af lægstu launum. Við þessu hefur verið brugðist með þingsályktunartillögu um skattleysi lægstu tekna, þ.e. þeirra tekna sem liggja undir viðurkenndu framfærsluviðmiði stjórnvalda, eins og það er til að mynda kynnt á vefsíðu velferðarráðuneytisins. Þessi tillaga felur í sér að tekjur undir 300.000 kr. yrðu skattlausar. Megininntakið er að hækka persónuafsláttinn til að svo megi verða, en að hann falli síðan með hækkandi tekjum — þó þannig að í tekjustiganum hverfist málið í kringum tekjur í kringum 560.000 kr.

Að baki þessum tillöguflutningi liggur annars vegar þetta sem ég gat um, að það er mjög óþægilegt, svo ekki sé meira sagt, hversu háður ríkissjóður er skatttekjum af lægstu launum. Og svo hitt, sem var glögglega sýnt fram á í afar gagnlegri skýrslu Alþýðusambands Íslands sem út kom í ágúst 2017 um þróun á skattbyrði. Sú skýrsla tekur til áranna 1998–2016 og þar kemur fram að skattbyrði hafi hækkað í öllum tekjuhópum — en mest hjá hverjum, herra forseti? Jú, lægstu tekjuhópunum.

Sá skuggi hangir einnig yfir hinni sterku stöðu ríkissjóðs að hún er keypt því verði að bætur almannatrygginga hafa ekki fylgt launaþróun, eins og margsinnis hefur verið bent á af hálfu talsmanna aldraðra og margra fleiri. Þá gerir það illt verra að fólki í þessari stöðu er gert erfitt um vik, svo ekki sé fastar að orði kveðið, hafi það vilja og getu til að bæta hag sinn með aukinni vinnu, því að þá taka við skerðingar á skerðingar ofan, gerðar af miklu hugviti og gengið eftir þeim af harðfylgi.

Svo dæmi sé tekið af frítekjumarkinu sem kveður á um skerðingar bóta vegna atvinnutekna tókst að fá ríkisstjórnina til að hækka markið upp í 100.000 kr., sem út af fyrir sig ber að þakka, úr þessum 25.000 kr. sem áður giltu. Sá sem hér stendur hefur margtalað fyrir því að þetta mark verði fellt niður með þeim rökum að slík aðgerð kosti ríkissjóð ekki neitt. Fyrir liggur greinargerð um það efni, vönduð að allri gerð, þar sem tekið er tillit til viðbótartekna ríkissjóðs af auknum tekjum og veltu. Hafa ekki verið bornar brigður á þá útreikninga — en kannski frekar látið eins og menn hafi ekki heyrt það sem sagt hefur verið um þetta.

Þá ber að geta hinnar alræmdu skerðingar bóta almannatrygginga vegna tekna á formi greiðslna úr lífeyrissjóði. Þetta fyrirkomulag gerir að engu lífeyrissparnað fólks sem greitt hefur um langan aldur og felur í sér eignaupptöku af ákveðnu tagi. Hér er átt við greiðslur af lágum tekjum. Þegar það á við stendur maður uppi með sömu tekjur og maður sem aldrei hefur greitt í lífeyrissjóð. Þessi háttur hefur grafið undan lífeyrissjóðunum, og þeir hafa fjallað um þetta á opinberum vettvangi, og rýrt tiltrú fólks á þeim. Verður að telja þessa aðgerð, sem vitaskuld á sér alllanga sögu, vanhugsaða og rangláta.

Um tekjuhlið fjárlaga má auðvitað margt segja en ég vil bara geta þess að nýtt skattþrep sýnist í andstöðu við yfirlýsta stefnu um einfalt skattkerfi og hefði e.t.v. verið nærtækara að hækka persónuafslátt. Almenn hækkun tekjuskatts sem nær allt til hæstu tekna er í mínum huga gagnrýniverð og maður hlýtur að spyrja: Hvert er tilefni þess að hverfa eigi frá samsköttun hjóna? Af hverju dúkkar það upp svona upp úr þurru?

Hins vegar er á tekjuhlið haldið fast við að fella niður bankaskattinn, eins og það sé brýnt mál, og gert vel við bankana í leiðinni með því að lækka gjald til Fjármálaeftirlitsins og gjald í Tryggingarsjóð innstæðueigenda.

Úr því að við erum komin á svið bankanna, herra forseti, vil ég geta þess að verðtryggingin, sem ekkert er fjallað um í þessari tillögu, hefur mjög íþyngjandi áhrif fyrir ríkissjóð. Ég minni á fyrirspurn mína sem er að verða sex mánaða gömul til fjármálaráðherra um kostnað ríkissjóðs vegna húsnæðisliðarins, sem hefur lagt nánast óbærilegar byrðar á heimili landsmanna.

Að lokum, herra forseti, vil ég geta þess að í fjármálaáætluninni er fjallað um leiðir til að grynnka á ófjármögnuðum skuldbindingum ríkissjóðs gagnvart Lífeyrissjóði opinberra starfsmanna. Hér er um mjög stórt mál að ræða sem verður að fjalla um ítarlega (Forseti hringir.) vegna þess að þessar lífeyrisskuldbindingar líta allt öðruvísi út þegar tekið er tillit til lífslíkna framtíðarinnar en ekki bara litið um öxl.