149. löggjafarþing — 86. fundur,  28. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[11:29]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við erum að ljúka fyrri umr. um ríkisfjármálaáætlun hæstv. ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur fyrir árin 2020–2024, umræðu sem hefur staðið yfir tvo síðustu dagana og fram á kvöld. Ég vil segja að umræðan hefur verið góð, hún hefur verið málefnaleg. Það eru margar gagnlegar ábendingar um fjölmörg atriði og verkefni sem þessi viðamikla áætlun hefur að geyma og hafa þess vegna komið fram í umræðunni.

Það er svo eðlilegt í enda slíkrar umræðu að við veltum því fyrir okkur, virðulegur forseti — og reyndar ávallt — hvaða form henti fyrir slíka umræðu, fyrir jafn umfangsmikið og mikilvægt mál og fjármálaáætlun til fimm ára er. Það er metið nauðsynlegt að ráðherrar komi og fjalli um stefnumörkun og áætlanir og svari fyrir þau málefnasvið og þá málaflokka sem undir þá heyra og þeir bera ábyrgð á. Það samtal verður að fara fram og er óhjákvæmilegt — met ég — fyrir jafn mikilvægt og stefnumarkandi mál sem áætlunargerðin er.

Það er kannski helst varðandi formið á samtalinu milli hv. þingmanna og hæstv. ráðherra að þingmenn myndu vilja meiri tíma í það samtal. Ég velti því hér upp til umhugsunar og beini því til hæstv. forseta að skoða það. Ég segi þó um leið að mér finnst formið heilt yfir gott að þessu leyti og hafa gengið vel fyrir sig og sérstaklega skilað sér í þessu samtali á milli þingmanna og ráðherra. Ég fylgdist vel með umræðunni og það var komið inn á fjölmarga þætti í þessari áætlun.

Svo verður að hafa í huga að fjármálaáætlunin fær heilmikið rými í dagskrá þingsins sem nær yfir heila þrjá daga og því eru tímatakmarkanir á ræðum óhjákvæmilegar. Þátttakan var hins vegar almennari en ella. Það er jákvætt hversu margir tóku þátt í umræðunum. Það er vel.

Svo má nefna að málið kemur nú mjög tímanlega til þingsins og það er vel. Mikil vinna hefur átt sér stað í stofnunum og ráðuneytum til að koma þessu tímanlega inn til þingsins. Ég vil líka þakka fyrir kynningu og dreifingu málsins, óvenjutímanlega fyrir fyrri umr., sem gefur þingmönnum ráðrúm til að undirbúa sig betur fyrir fyrri umr. Mér fannst umræðan núna bera þess jákvæð merki.

Um efni umræðunnar hafa efnahagsforsendur verið mikið ræddar og í samhengi við lög um opinber fjármál, til að mynda þau grunngildi og þær fjármálareglur eða skilyrði sem þarf að uppfylla gagnvart stefnu sem og áætlun og fjárlög hvíla á. Ég skil þá umræðu vel við þessar efnahagslegu forsendur, minni hagvöxt en mörg undanfarin ár og undirliggjandi óvissuþætti. Það er hins vegar mikilvægt að hafa í huga að áætlun sem þessi er einmitt tæki til að fá skýrari mynd og skapa þannig fremur festu og fyrirsjáanleika, því að efnahagsþróun verður alltaf háð óvissu. Sem tæki opinberra fjármála gerir slík áætlun okkur betur í stakk búin til að mæta breytingum og þróun í efnahagsumhverfinu og taka upplýstari ákvarðanir um ráðstöfun opinbers fjár.

Í þessu sambandi vil ég, eins og ég gerði í fyrri ræðu, draga fram það sem er til bóta í frágangi áætlunarinnar frá fyrri áætlunum. Þar vil ég nefna sviðsmyndagreiningar sem finna má í rammagreinum tvö og þrjú í greinargerð með þingsályktunartillögunni. Þær eru mjög til bóta.

Í því samhengi er í 8. gr. laga um opinber fjármál fjallað um hagrænar forsendur og þar er kveðið á um að byggja skuli á opinberum hagtölum og þjóðhagsspá. Þessi áætlun byggir á uppfærðri þjóðhagsspá Hagstofu Íslands frá því í febrúar 2019 sem tekur jafnframt mið af efnahagslegum áhrifum áforma stjórnvalda. Við megum ekki gleyma því í umræðunni þegar við tölum um óvissu og forsendur að sú spá tekur mið af efnahagslegum áhrifum af þeim aðgerðum sem boðaðar eru. Það er mikilvægt að hafa í huga að boðuð útgjaldaaukning og innviðafjárfestingar styðja við þær kringumstæður sem uppi eru. Þessi áætlun byggir enn fremur á stjórnarsáttmála og gildandi stefnu og gildandi áætlun fyrir árin 2019–2023, á heimildum fjárlaga sem þingið samþykkti í desember sl. fyrir 2019 sem eru að raungerast eftir því sem líður á árið.

Það mun eðli máls samkvæmt greiðast úr þeim tilteknu óvissuþáttum þegar líður á og heimildirnar eru í raun og veru þegar að raungerast. Í spá Hagstofunnar um 1,7% hagvöxt er þegar að einhverju marki gert ráð fyrir þessum þáttum, fækkun ferðamanna, hægari vexti einkaneyslu og samdrætti í atvinnuvegafjárfestingu. Þessi hagþróun er því þegar inni í forsendum fjármálaáætlunarinnar að þessu marki og það kom fram á fundi með Hagstofunni um hagspána í febrúar. Hins vegar er það verkefni okkar í þinginu og hv. fjárlaganefndar að kalla eftir upplýsingum og gögnum til að skýra þessa mynd enn frekar.

Þá má hafa í huga að í kraftmiklu efnahagsumhverfi og opnu hagkerfi eigum við að horfa til þátta sem byggja undir framtíðarverðmætasköpun og hagvöxt. Hagsæld og lífskjör munu þróast af slíkum þáttum og aukinni framleiðni. Hér í þessari áætlun getum við horft til margra þátta sem ýta undir slíka þróun.

Ég nefni stefnumótandi aðgerðir og boðaðar breytingar í menntamálum og aukin útgjöld til menntamála, breytingar á lánakerfi námsmanna, mikla aukningu til samgönguframkvæmda, heila 4 milljarða til viðbótar við gildandi áætlun. Mikil áhersla er á að stóraukin framlög til nýsköpunar, rannsókna og þróunar og þekkingargreina og er nú unnið að mótun heildstæðrar nýsköpunarstefnu og hönnunarstefnu.

Ég á mér einnig þá von, virðulegur forseti, að opinber klasastefna geti orðið hluti af slíkri stefnumótun. Skattaendurgreiðslur vegna rannsókna- og þróunarkostnaðar hafa verið hækkaðar og stoðkerfin efld sem og umgjörðin um rannsókna-, þróunar- og nýsköpunarumhverfið sem unnið er að því að efla og styrkja. Þetta á ekki bara við um þekkingargreinar og sprotafyrirtæki heldur á fjölmörgum sviðum í rótgrónari atvinnugreinum og til lausna á samfélagslegum áskorunum í velferðarmálum. Slík áhersla er ein meginforsenda möguleika okkar til aukinnar framleiðni, verðmætasköpunar og samkeppnishæfni og þar með jákvæðari hagþróunar og bættra lífskjara til lengri tíma litið.

Þessu tengt til framtíðar eru mikilvæg, eins og verið er að leggja upp með í þessari áætlun, aukin framlög til umhverfis- og loftslagsmála og verndun náttúrufarslegra verðmæta og áhersla á sjálfbæra nýtingu. Þetta er mikilvægt þegar við horfum til öryggis og sjálfbærni í atvinnugreinum eins og ferðaþjónustu, landbúnaði og matvælaframleiðslu og framtíðarþróunar í sjávarútvegi og fiskeldi.

Við eigum líka að halda því til haga, virðulegur forseti, þegar við fjöllum um þessa áætlun hvernig hagkerfið er statt og samansett, hverju við höfum áorkað hingað til í þeirri viðleitni að styrkja efnahagsumgjörðina. Þar má nefna afléttingu fjármagnshafta, afnám tolla og jöfnun lífeyrisréttinda á vinnumarkaði. Við höfum eflt umgjörð ríkisfjármála með setningu laga um opinber fjármál og aukið þjóðhagsvarúð. Við höfum sett á fót fjármálastöðugleikaráð. Við höfum innleitt hertara regluverk á fjármálamarkaði og sett lög um auknar eiginfjárkröfur. Við höfum forinngreitt á lífeyrisskuldbindingar, lagt áherslu á niðurgreiðslu skulda, lækkað þannig greiðslubyrði vaxta og náð fram sterkari stöðu ríkissjóðs. En samhliða er staða grunnstoða hagkerfisins, heimila og fyrirtækja, sterkari. Einn mælikvarði á það er skuldahlutfallið, skuldir sem hlutfall af vergri landsframleiðslu, sem nú er til að mynda lægra en var á uppgangstímum í aðdraganda efnahagsáfallsins fyrir rúmum áratug.

Við höfum því aukinn styrk, sterkari stöðu og traustari umgjörð til að takast á við slaka og tryggja hér áframhaldandi vöxt.

Við búum þannig við gjörbreytta umgjörð efnahagsmála, stöðu þjóðarbúsins, þjóðhagslegan sparnað, lægri skuldir og lægri vaxtabyrði og erum í sterkri stöðu til að takast á við bresti og hægari hagvöxt með auknum og skynsamlegum framlögum til innviðafjárfestinga.

Ég lauk fyrri ræðu hér, virðulegur forseti, á að lofa bréfi frá hv. fjárlaganefnd til annarra nefnda um fyrirkomulag og samvinnu sem fram undan er við umfjöllun okkar um málið — sem gengur nú til nefndar að lokinni þessari umræðu. Við ætlum okkur nokkrar vikur í þessa umfjöllun og miðað er við að eftir atvikum skili fastanefndir umsögnum eða ábendingum til hv. fjárlaganefndar 10. maí næstkomandi. En nú bíður okkar ærinn starfi, öflun upplýsinga og umsagna um málið, og ég vænti sem fyrr góðrar samvinnu við nefndir þingsins.