149. löggjafarþing — 87. fundur,  1. apr. 2019.

skógar og skógrækt.

231. mál
[16:13]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Hann bendir á mjög mikilvægt og verðugt málefni. Það er einmitt vegna þess sem landshlutaáætlanirnar og samráðið þar er svo mikilvægt, í þessu efni reynir á skipulagsgerð sveitarfélaga. Þar þarf að koma inn með sjónarmið um náttúruvá, eins og þetta er, og í skipulagsgerðinni þarf að taka mjög mið af því hvernig aukinn gróður, bæði skógur og aukinn sinuvöxtur, getur haft áhrif á hugsanlega útbreiðslu sinuelda.

Ég leit við á málþingi sem Samband íslenskra sveitarfélaga hélt sl. fimmtudag. Þar var verið að fjalla um þessi málefni út frá skipulagsvinnu, vinnu við landsskipulagsgerð og vörnum einmitt gegn náttúruvá á öllum stigum, m.a. út frá breytingum á loftslagi og hvaða áhrif þær hafa á náttúrufar og gróðurfar á ýmsum vettvangi,

Ég tel að þetta málefni sé mikilvægt og að á því þurfi að taka. Það á kannski ekki við að taka á því akkúrat í lögum sem fjalla um skóga og skógrækt, en þegar verður farið að vinna eftir áætlununum þurfa þessi sjónarmið sannarlega að koma inn í umfjöllunina.