149. löggjafarþing — 87. fundur,  1. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 242/2018 um breytingu á II. viðauka við EES-samninginn.

585. mál
[16:36]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Ari Trausti Guðmundsson) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég geri grein fyrir nefndaráliti hv. utanríkismálanefndar um tillögu til þingsályktunar sem hefur hið langa heiti tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun og snýst um EES-samninginn. Við höfum kallað þetta plastpokaþingsályktunina okkar í milli, nefndarmenn, en hún fjallar aðallega um það. Ég ætla að leyfa mér að lesa nefndarálitið. Það er stutt og gengur vel upp:

„Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bergþór Magnússon og Pétur Gunnarsson frá utanríkisráðuneyti. Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 242/2018, frá 5. desember 2018, um breytingu á II. viðauka (tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn, frá 2. maí 1992, og að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/720, frá 29. apríl 2015, um breytingu á tilskipun 94/62 að því er varðar að draga úr notkun á þunnum burðarpokum úr plasti.

Sex mánaða frestur samkvæmt EES-samningnum til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara var veittur til 6. júní 2019. Framsetning tillögunnar telst að mati nefndarinnar í samræmi við 7. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála.

Í tilskipun (ESB) 2015/720 eru lagðar skyldur á aðildarríki Evrópusambandsins að minnka notkun á plastpokum sem eru þynnri en 0,05 millimetrar en undir það falla bæði þunnir grænmetispokar og hefðbundnir innkaupapokar úr plasti. Þá ber að gera ráðstafanir til að minnka notkun á þeim þar sem aðildarríki hafa visst sjálfræði um hvaða aðgerða verður gripið til. Í þeim ráðstöfunum gæti falist að nota landsbundin markmið um minni notkun, að viðhalda eða innleiða efnahagsleg stjórntæki sem og markaðshindranir að því tilskildu að þær séu hóflegar og án mismununar. Í tilskipuninni er kveðið á um að slíkar ráðstafanir geti verið mismunandi eftir umhverfisáhrifum af endurnýtingu þunnra burðarpoka úr plasti eða af förgun þeirra, eiginleikum þeirra hvað varðar myltingu, endingu þeirra eða sértækri fyrirhugaðri notkun.

Innleiðing tilskipunarinnar kallar á lagabreytingar og hefur umhverfis- og auðlindaráðherra á yfirstandandi löggjafarþingi lagt fram lagafrumvarp til innleiðingar á tilskipuninni. Í samræmi við ákvæði tilskipunarinnar eru í frumvarpinu lagðar til ráðstafanir til að tryggja að eigi síðar en 31. desember 2019 verði fjöldi burðarpoka úr plasti sem hver einstaklingur notar að jafnaði árlega 90 pokar eða færri og eigi síðar en 31. desember 2025 verði fjöldinn 40 pokar eða færri. Þá er lagt til að frá 1. júlí 2019 verði óheimilt að afhenda burðarpoka, þar með talda úr plasti, án endurgjalds á sölustöðum vara og þess krafist að gjaldið verði sýnilegt á kassakvittun.“

Þá mun ég vilja skjóta því að að þetta boðaða frumvarp er langt komið í meðförum hv. umhverfis- og samgöngunefndar.

Nefndin leggur til að tillagan til þingsályktunar verði samþykkt.

Undir þetta skrifa 25. mars hv. þingmenn Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður nefndarinnar, Ari Trausti Guðmundsson framsögumaður, Ásgerður K. Gylfadóttir, Bryndís Haraldsdóttir, Gunnar Bragi Sveinsson, Logi Einarsson, Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Smári McCarthy.

Þorgerður K. Gunnarsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.