149. löggjafarþing — 87. fundur,  1. apr. 2019.

Jafnréttissjóður Íslands.

570. mál
[17:03]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. forsætisráðherra gat um þetta í framsöguræðu sinni og við verðum einfaldlega að treysta því að þetta verði gert. Ég tel mjög mikilvægt við þessa yfirfærslu og breytingar á sjóðnum að haft verði samráð. Við göngum út frá því að svo verði og að það verði ekki bara í orði, eins og er voðalega mikið í tísku hjá ríkisstjórninni, heldur sé raunverulegur vilji til samráðs.

Ástæðan fyrir því að ég er að ræða um heildstæða yfirsýn yfir framlög til rannsókna jafnréttismála er að það skiptir gríðarlega miklu máli að við gerum þetta markvisst. Við erum forysturíki þegar kemur að jafnréttismálum og við eigum að halda okkur þar. Við þurfum líka að þora að snerta á viðkvæmum þáttum, styrkja verkefni, átök og fleira. #metoo er gott dæmi um það.

Ég vil minna á, af því að formaður Framsóknarflokksins er hér í hliðarsal, að rótin að Jafnréttissjóðnum nær svolítið langt aftur, alveg til ársins 2005, að mig minnir, þegar Halldór Ásgrímsson, þáverandi formaður Framsóknarflokksins, hafði mikinn metnað til að efla rannsóknir og styrkja jafnréttismálin. Síðan þróast þetta tíu árum síðar yfir í Jafnréttissjóðinn á 100 ára afmæli kosningarréttar okkar kvenna.

Það sem má ekki gerast er að þetta verði bara einhver viðbót og við séum að klastra svolítið upp á jafnréttismálin, að við séum að fela okkur bak við að hérna verði sett fjármagn og þá sé það bara nóg. Við þurfum að vita í hvað það fer. Við verðum að ná markvissum árangri. Við þurfum að árangursmeta.

Ég spyr hv. þingmann hvort það væri ekki ráð að Rannís, sem ég treysti svo miklu betur en flestum öðrum fyrir rannsóknum og þróun, í samstarfi t.d. við háskólasamfélagið og forsætisráðuneytið sem er núna komið með jafnréttismálin láti gera úttekt á því hvaða fyrirkomulag sé best til að efla rannsóknir á jafnréttismálum. Er það með því að viðhalda sjóðnum eða væri eitthvert annað fyrirkomulag betra til að efla og styðja við jafnréttisrannsóknir?