149. löggjafarþing — 87. fundur,  1. apr. 2019.

Seðlabanki Íslands.

790. mál
[19:55]
Horfa

Einar Kárason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessi góðu svör frá hæstv. forsætisráðherra. Það er alveg rétt, þetta með dálítið mikið bákn um kannski ekkert mjög stóra hluti. Mörgum hefur þótt Seðlabankinn vera ærið bákn nú þegar, stórt og mikið batterí í stóru og miklu húsi utan um einhverja minnstu mynt í veröldinni. Oft heyrir maður talað um að hann hafi ekki sinnt starfsemi sinni miklu verr þegar hann var ein skúffa í Landsbankanum.

Nú heyrir maður að líklega muni þurfa að byggja tvær hæðir ofan á Seðlabankann til að hann geti séð um þetta núverandi hlutverk. Þegar ég fór að spyrja mér reyndari og vitrari menn hér í þinginu, eða viðra þessar áhyggjur mínar, var mér sagt að hugmyndir um sameiningu þessara stofnana hafi mjög verið uppi þegar menn voru að endurskipuleggja lög um Seðlabankann eftir hrunið. Þá hafi heyrst mjög tillögur um þetta mál en að þeim tillögum hafi ekki verið fylgt, fyrst og fremst fyrir atbeina þungavigtarmanna í flokki hæstv. forsætisráðherra, enda var þáverandi formaður flokksins fjármálaráðherra. Til gamans mætti spyrja sig hvort það gæti verið merki um þverrandi völd og áhrif Vinstri grænna að það skuli vera farið út í þetta núna.