149. löggjafarþing — 87. fundur,  1. apr. 2019.

Seðlabanki Íslands.

790. mál
[20:27]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. Ég vil byrja á að fagna því að við skulum vera að hefjast handa við að setja nýja heildarlöggjöf um Seðlabanka Íslands og með því sameiningu Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins þótt þar sé auðvitað að ýmsum sjónarmiðum að gæta. Ég vil líka þakka kærlega fyrir hvernig staðið hefur verið að verki. Ég hygg að mér sé óhætt að fullyrða að það séu a.m.k. ekki mjög mörg dæmi um það að ráðherra, í þessu tilfelli forsætisráðherra, hafi tryggt að samráð væri haft með jafn ítarlegum hætti við þá nefnd sem um frumvarpið á að fjalla, í þessu tilfelli efnahags- og viðskiptanefnd, þar sem verkefnishópur sem stóð að samningu frumvarpsins hefur komið á fund nefndarinnar tvisvar sinnum, annars vegar rétt áður en frumvarpið var að fullu mótað og síðan um það leyti þegar það fór inn í samráðsgátt stjórnvalda. Þetta finnst mér vera til fyrirmyndar. Mér finnst rétt að fyrir það sé þakkað. Það auðveldar okkur sem sitjum í efnahags- og viðskiptanefnd leikinn. Þannig að þó að það væri ekki nema af þeim ástæðum er rétt að koma hér upp við 1. umr. og segja: Mikið vildi ég að fleiri tækju hæstv. forsætisráðherra sér til fyrirmyndar í þeim efnum. (Forsrh.: … haltu áfram.) Já, ég nýti hvert tækifæri sem hægt er að fá.

Það er hins vegar alveg ljóst að þetta er viðamikið frumvarp. Þetta er frumvarp sem skiptir gríðarlega miklu máli og þess vegna kemur það mér mjög á óvart að ekki skuli vera fleiri í salnum. Hérna eru bara stjórnarþingmenn, fyrir utan hæstv. forseta, og hér kemur einn stjórnarandstæðingur í viðbót inn í salinn. Það er ágætt að svo sé, það skiptir máli þegar við tölum um jafn viðamikið frumvarp. Við erum auðvitað með sameiningu Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins, gangi frumvarpið óbreytt í gegn, að búa til alveg ótrúlega valdamikla stofnun. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir ákveðinni valddreifingu og opnu ferli þegar kemur að ákvarðanatöku sem kemur til móts við áhyggjur manna eins og minna sem fá alltaf aðeins hraðari hjartslátt þegar komið er á fót stofnunum sem hafa gríðarleg völd í íslensku samfélagi.

Ég hygg að það hvernig staðið er að verki í þeim efnum sé ágætt. Ég renndi hins vegar aðeins yfir umsagnir sem bárust í samráðsgáttina, sem voru því miður ekki mjög margar. Ég vil aðeins vekja athygli á því að annars vegar eru flestir á því að hér sé að mestu leyti verið að stíga mjög farsælt skref. Áhyggjurnar snúa kannski fyrst og fremst að því hvort skynsamlegt sé að sameina Fjármálaeftirlitið og Seðlabankann að öllu leyti og hvort viðskiptaháttaeftirlitið eigi að starfa sjálfstætt og vera óháð Seðlabankanum. Kannski getum við gert það enn óháðara en haft það innan veggja Seðlabankans til að ná fram t.d. hagræðingu sem að er stefnt.

Ég hygg að þetta sé sjónarmið sem við í efnahags- og viðskiptanefnd þurfum að hafa í huga og vega og meta. Ég hef sjálfur á síðustu árum talað mjög fyrir því að ganga eigi hreint til verks og sameina Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið með manni og mús. Ég er enn þeirrar skoðunar en tek eftir ábendingum, m.a. frá Viðskiptaráði, Samtökum fjármálafyrirtækja og Samtökum atvinnulífsins, sem eru kannski efnismestu umsagnirnar sem bárust.

Eitt af því sem skiptir máli þegar við komum á fót nýjum Seðlabanka, held ég að okkur sé óhætt að tala um, nýjum og öflugum Seðlabanka, valdamiklum Seðlabanka, er að tryggja að með sameiningunni sé stjórnkerfi bankans með þeim hætti að það virki og stjórnskipanin öll. Í þeim efnum skiptir verulega miklu að ekki verði gert ráð fyrir því að það sé einn seðlabankastjóri heldur þrír varaseðlabankastjórar á sviði peningamála, fjármálastöðugleika og fjármálaeftirlits. Þeir munu auðvitað skapa ákveðið mótvægi við seðlabankastjórann sjálfan auk þess sem utanaðkomandi aðilar sitja í ýmsum nefndum, svo sem fjármálastöðugleikaráði og peningastefnunefnd. Allt þetta skiptir máli.

Hin efnislega umræða fer fram hér að loknu því verki sem bíður okkar í efnahags- og viðskiptanefnd og þá er ráðrúm til að fara í ítarlega efnislega umræðu á grundvelli þeirrar vinnu sem nefndin skilar af sér. Ég kemst ekki hjá því að lokum að benda á að skipunartími núverandi seðlabankastjóra rennur út 20. ágúst. Búið er að auglýsa laust starf seðlabankastjóra. Það kemur í hlut hæstv. forsætisráðherra að skipa hæfan einstakling til að gegna embætti næstu fimm árin hið minnsta og líklegast tíu ár.

Þetta er ekki léttvæg ákvörðun því að jafnvel þótt við göngum þannig frá lögum um Seðlabankann skiptir miklu máli hvers konar einstaklingur velst til þessa starfs. Við erum að einhverju leyti að marka stefnu til framtíðar, ekki bara varðandi peningamál eða efnahagsmál almennt heldur er með því verið að slá tóninn í því hvers konar stjórnsýsla verður rekin á komandi árum innan bankans og hvort embættismönnum innan stjórnsýslunnar sé ætlað að gæta hófsemdar, meðalhófs og sanngirni í störfum sínum. Þess vegna skiptir máli að til starfans veljist ekki aðeins einstaklingur sem hefur skilning og þekkingu á efnahagsmálum heldur sem hefur hæfileika til að skilja og skynja hvaða áhrif ákvarðanir bankans í einstökum málum, hvort heldur það er í vaxtamálum eða öðrum, hafa á daglegt líf einstaklinga og fyrirtæki.

Það skiptir máli að til starfans veljist seðlabankastjóri sem hefur ekki bara burði til að tala máli Íslands á erlendum vettvangi og gæta hagsmuna okkar heldur ekki síður, og það veit ég að hæstv. forsætisráðherra leggur áherslu á, hafi hæfileikann til að ræða flókin mál á einfaldan og skiljanlegan hátt og efni til samtals við almenning um peningastefnuna, um Seðlabankann og auki þar með skilning allra óháð hlutverki bankans.

Ég kemst ekki hjá því að segja að ekki væri verra ef nýr seðlabankastjóri hefði tekið þátt í atvinnulífinu, hefði jafnvel tekið þátt í að stofna og reka fyrirtæki. Það er víst ekki sú krafa sem gerð er til nýs seðlabankastjóra en ég er sannfærður um að fátt auki skilning manna meira en að hafa tekið þátt í því að vera á almennum vinnumarkaði og jafnvel tekið þátt í því að ryðja nýjar brautir í atvinnulífinu.

Ég fagna því að frumvarpið er komið fram. Ég hlakka til að fá að takast á við það í efnahags- og viðskiptanefnd. Ég ítreka þakkir mínar til verkefnisstjórnarinnar og hæstv. forsætisráðherra. Það er til fyrirmyndar hvernig staðið var að verki og það, eins og ég sagði áðan, auðveldar okkur eftirleikinn.