149. löggjafarþing — 87. fundur,  1. apr. 2019.

Seðlabanki Íslands.

790. mál
[20:55]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla að valda hv. þingmanni vonbrigðum að því leyti að ég er eiginlega enn þá jafn neikvæður og áður en hann hóf mál sitt. Ég þakka honum samt kærlega fyrir andsvarið, sem var mjög gott.

Vissulega sátum við sama fund. Þetta er bara eins og þegar menn verða vitni að glæp, þeir segja yfirleitt ekki sömu söguna ef þeir eru fleiri en einn eða tveir. Ég gat ekki betur heyrt á þeim sem komu á þennan nefndarfund en að þeir væru í sjálfu sér á mjög líkum stað og ég er búinn að vera sjálfur, að þeir hefðu sveiflast. Ég viðurkenndi það áðan að ég hefði vissulega sveiflast.

Jú, jú, mikil ósköp, eins og ég sagði í upphafi máls míns taldi ég „orginalt“ að það væri ekki bara gott heldur jafnvel nauðsynlegt að Fjármálaeftirlitið færi þarna inn. En við frekari umhugsun — svo ég tali nú ekki um eftir það sem er búið að ganga á núna í kringum Seðlabankann, sem mér finnst satt að segja alveg grafalvarlegt. Ég verð að viðurkenna það.

Þess vegna finnst mér líka grafalvarlegt að þarna er örfáum mönnum falið rosalega mikið vald. Þeir leggja upp í vegferð sem þeir eru margoft á leiðinni varaðir við af hæfustu mönnum. En í krafti þess að hafa þetta vald halda þeir áfram. Og guð einn veit hvar t.d. það mál sem var til umfjöllunar um daginn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd endar. Endar það í stórfelldum skaðabótakröfum á hendur ríkinu? Við vitum það ekki enn þá. Vonandi verður það ekki.

En það breytir ekki í mínum huga neinu um alvarleika málsins. Í krafti allra þeirra valda sem menn höfðu gátu þeir farið svona fram. Ef fjármálaeftirlitið bætist við líka fá menn náttúrlega auknar heimildir og aukin völd líka, út í frá. (Forseti hringir.)

Þannig að ég er eiginlega enn þá jafn neikvæður, forseti, því miður.