149. löggjafarþing — 87. fundur,  1. apr. 2019.

Seðlabanki Íslands.

790. mál
[20:59]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður segir, það er svo gott við opinn fund að þá er allt saman til á teipi. Það væri einnar messu virði að við félagarnir settumst bara niður og horfðum aftur á fundinn (Gripið fram í.) til að rifja upp upplifunina.

Ég ítreka að mér fannst á orðum allnokkurra sem þarna voru, eins og ég sagði áðan, að þeir væru á svipuðum stað og ég, þeir sætu eiginlega á girðingu og væru svolítið að velta þessu fyrir sér. Jú, þeir hefðu verið jákvæðir fyrir því að þetta yrði gert. Þetta væri til styrkingar, nákvæmlega eins og ég sagði áðan, en síðan hefðu þeir kannski kólnað aðeins eftir því sem á leið og nær dró þessum fundi.

Án þess að ég ætli að fara að halda því fram að upplifun mín af fundinum sé réttari en hv. þingmanns var þetta nú samt það sem ég fékk á tilfinninguna við það að heyra allt þetta mæta fólk sem þarna kom, að þar væru efasemdaraddir um að framkvæma þessa sameiningu eins og hér er gert ráð fyrir.

Við ættum kannski bara að jafna þetta út með því að setjast með popp og kók (KÓP: Humarsúpu. )eða humarsúpu, sem væri í boði hússins þá, og fara aðeins yfir þetta mál aftur.

En í alvöru er það þannig að mér þykir þetta það stórt skref sem við erum að stíga og það hefur það langt fótspor og langt inn í framtíðina að ég held að við verðum að vanda okkur eins og kostur er við það.