149. löggjafarþing — 87. fundur,  1. apr. 2019.

tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur.

762. mál
[21:19]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, sem við köllum hér skattlagningu tekna af höfundaréttindum.

Tilefni frumvarpsins má m.a. rekja til sáttmála stjórnarflokkanna um ríkisstjórnarsamstarf og eflingu Alþingis, en þar kemur m.a. fram sú stefnuyfirlýsing að hugað verði að breytingum á skattlagningu á tónlist, íslensku ritmáli og fjölmiðlum. Jafnframt kemur fram að höfundagreiðslur sem viðurkennd samtök rétthafa innheimta skuli skattleggja sem eignatekjur.

Með frumvarpi þessu er stigið skref í samræmi við þá stefnuyfirlýsingu og lagt er til að greiðslur til höfunda og/eða annarra einstaklinga sem rétthafa frá viðurkenndum samtökum rétthafa samkvæmt höfundalögum verði skattlagðar sem fjármagnstekjur í stað launatekna. Er það í samræmi við gildandi meginreglur um skattlagningu fjármagnstekna. Þá er jafnframt lagt til að fyrirkomulag skattheimtu á þessum greiðslum skuli vera í formi staðgreiðslu. Með því verður innheimta skattsins í samræmi við þær meginreglur sem gilda um staðgreiðslu skatts af fjármagnstekjum auk þess að vera jafnframt öruggari og skilvirkari en ella.

Virðulegi forseti. Ég ætla að nefna að þótt hér hafi verið vísað til stjórnarsáttmálans er það svo að þessari hugmynd hefur að sjálfsögðu verið margoft hreyft í gegnum árin og hún fæðist ekki við samningaborðið við stjórnarmyndun, heldur á sér rætur í áralöngu samtali við þá sem hafa einkum beitt sér fyrir hönd þeirra sem hafa tekjur vegna höfundaverka og kallað hefur verið eftir því að gerðar yrðu breytingar á skattlagningunni. Félag tónskálda og textahöfunda á þar nokkurn þátt og lengi var málflutningur þess sá að ekki ætti að skipta máli hvort um væri að ræða hugverk eða tréverk. Margir hafa eflaust heyrt þessu haldið á lofti og það hefur oft borið á góma að þetta eigi ekki að skipta máli þegar jafnræði í skattlagningu höfunda margvíslegra sköpunarverka hefur verið rætt. Þannig má segja að undirbúningur að þessari bragarbót á skattlagningu hugverka sem hér er rædd hafi verið unnin í fyrri ráðherratíð minni í fjármálaráðuneytinu, að undirbúningurinn hafi sem sagt verið unninn á undanförnum árum. Þótt aðdragandinn hafi verið nokkuð langur verð ég að segja að ánægjulegt er að nú sé loks komið að því að leggja þessa tillögu fyrir þingið.

Ég vonast að sjálfsögðu til þess að við getum náð saman um þá grundvallarhugsun sem hér er undir, að ekki sé ástæða til að meðhöndla þá tekjustrauma sem hér eru undir sem hverjar aðrar launagreiðslur eða aðrar tekjur sem falla inn í staðgreiðslukerfi tekjuskattsins, enda er það í mörgum tilvikum áhorfsmál hvar skattstofnar eiga heima í skattaregluverkinu. Einhverjir myndu segja að þetta væri nokkuð framsækin tillaga, sérstaklega þegar hún er borin saman við skattframkvæmd í helstu samanburðarríkjum, en það er nú í fínu lagi að vera framsækinn í skattaréttinum.

Mig langar að geta þess að á meðan málið lá frammi í samráðsgátt komu athugasemdir sem lutu m.a. að þeirri skilgreiningu sem er að finna í frumvarpinu og þeirri takmörkun sem felst í því að hér er verið að miða við þær greiðslur sem viðurkennd samtök rétthafa greiða út. Og það er alveg umhugsunarefni í þinglegri meðferð hvort sú skilgreining sem þar hefur fæðst, í vinnslu við málið, hjálpar til við að ná þeim grundvallartilgangi. Má kannski segja um það að þetta sé viðleitni til að hafa það alveg skýrt hvers konar greiðslur er verið að láta breytinguna ná til, en frá sjónarhóli skattyfirvalda, m.a. vegna eftirlits, geta risið álitamál þegar ekki er alveg skýrt að greiðslurnar séu af þeim stofni að viðurkennd samtök rétthafa hafi haft með þau að gera. Ég geri mér grein fyrir að þetta er álitamál.

Þá má gera ráð fyrir að breytingar á skattlagningu greiðslna til höfunda og/eða annarra einstaklinga sem rétthafa sem boðaðar eru í frumvarpinu muni hafa neikvæð áhrif á tekjur ríkissjóðs þar sem lækkun tekna af tekjuskatti og tryggingagjaldi verði meiri en hækkun tekna af fjármagnstekjuskatti. Við sjáum fram á að sveitarfélög verði af útsvarstekjum af þeim greiðslum sem hér um ræðir. Áætlað er að nettótekjutap ríkisins nemi um 30 millj. kr. en tekjutap sveitarfélaga um 80 millj. kr. á ári.

Virðulegi forseti. Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.