149. löggjafarþing — 87. fundur,  1. apr. 2019.

tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur.

762. mál
[21:27]
Horfa

Einar Kárason (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þekki þetta mál. Þetta hefur lengi verið baráttumál margra þeirra sem eiga sitt viðurværi undir höfundarétti. Ég hef skrifað um þetta mál áður og tekið þátt í samtökum og samtölum um að hrinda því í framkvæmd. Þess vegna er ég ánægður að sjá það. Ég var líka mjög ánægður með að heyra þann skilning sem hæstv. fjármálaráðherra leggur í hugsunina á bak við þetta og hver meiningin sé með þessu frumvarpi, eins og kom fram í hans framsöguræðu.

Það sem ég fylltist hins vegar miklum áhyggjum yfir þegar ég las frumvarpið var það atriði að jafnan er talað um það sem innheimt er af viðurkenndum samtökum höfundarétthafa. Við þekkjum svoleiðis samtök, það eru t.d. samtök eins og STEF enda eru þau fyrst talin upp í greininni. En þegar kemur að bókmenntaverkum er yfirleitt ekkert innheimt af neinum samtökum rétthafa heldur gengur það beint á milli þeirra sem vilja nýta sér viðkomandi verk. Við höfum litið svo á að þó að höfundatekjur í okkar litla samfélagi séu yfirleitt ekki miklar myndi menn dálitla innstæðu, einhvers konar sparisjóð í verkum sínum, og síðan gerist það öðru hvoru að það eru tekjur af þessum sjóði. Eitthvert tímarit, leikhús, forlag, vill gefa út aftur eða birta úr því og þá koma svona litlar tekjur. Við hugsum með okkur að ef maður á ljóð í bók og það er birt og maður fær tekjur af því ætti það að vera alveg jafngilt því að hafa tekjur af einhverjum þúsundkalli sem maður á inni á sparisjóðsbók.

Ég hef miklar áhyggjur af þessu. Þetta mun ekki ná til tekna okkar höfundanna. Og við sem eigum okkar undir tekjum af bókaútgáfu höfum þegar orðið fyrir miklum vonbrigðum með þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að hætta við að efna loforð sitt (Forseti hringir.) um að fella niður virðisaukaskatt á bókum.