149. löggjafarþing — 87. fundur,  1. apr. 2019.

tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur.

762. mál
[21:32]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við skoðum þetta áfram með stöðu rithöfunda í tengslum við þetta frumvarp.

En varðandi bókaútgáfuna var það kjarnaatriði í allri hugsun um virðisaukaskatt eða aðrar leiðir til ívilnunar fyrir bókaútgáfuna að verja útgáfu íslensks ritmáls. Það er kjarnaatriðið. Hv. þingmaður leggur áherslu á að best hefði verið að fara þá leið að fella niður virðisaukaskatt af bókum, en eðli virðisaukaskattsins er þannig að með því er ekkert víst að rithöfundarnir sjálfir hefðu notið góðs af því. Þar er þá undir spurningin um hvort virðisaukaskattsleysi bóka hefði glætt eitthvað bóksölu í landinu. Þá hefðum við verið komin með þá stöðu að bóksalar, allir þeir sem væru að bjóða bækur, eftir atvikum tímarit, til sölu, væru inni í virðisaukaskattskerfinu með annan fótinn en ekki hinn. Uppistaðan af vörunum sem væru til sölu væri ekki í virðisaukaskattskerfinu, en allur reksturinn væri hins vegar þar inni, t.d. öll aðföng fyrir reksturinn. Það er fyrirkomulag sem þykir mjög óheppilegt þegar haldið er úti virðisaukaskattskerfi. Þess vegna var lögð áhersla á að fara aðra leið til að tryggja að útgáfan sjálf, útgáfa íslensks ritmáls, nyti stuðnings sem væri eins og ígildi þeirrar skattalegu ívilnunar sem hafði verið hugsuð sem virðisaukaskattsútfærsla.

Ég held að aðalmálið sé það að líta eftir því, fylgjast með því hvernig til tekst og vera reiðubúin að gera breytingar ef við náum ekki markmiðum okkar.