149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

störf þingsins.

[13:47]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég kem hér til að fagna því að starfshópur um heildarstefnumörkun fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku hefur tekið til starfa á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Tvítyngi, það að vera jafnvígur á tvö tungumál, er verðmætt, bæði fyrir einstaklinga og samfélagið í heild. Það er mikilvægt fyrir þroska barna að fá tækifæri til að eiga samskipti á sínu móðurmáli. Þekking á móðurmálinu hefur áhrif á sjálfsmynd barna, er nauðsynlegur grunnur fyrir öðru tungumálanámi og þar með árangri í öllu námi og virkri þátttöku í þjóðfélaginu. Stuðningur, hvatning og virðing fyrir námi í móðurmáli samhliða námi í íslensku er mikilvæg. Þar er ábyrgð foreldra og skóla sameiginleg.

Hugsið ykkur hvers börn fara á mis ef þau geta ekki rætt við afa og ömmu. Síðastliðinn föstudag hitti ég ásamt fleiri þingmönnum nefnd pólskra þingmanna sem hefur það hlutverk að sinna Pólverjum búsettum erlendis og halda tengslum við þá. Þeirra áhersla var einmitt á að íslenskt skólakerfi byði upp á tækifæri til að rækta pólsku og viðurkenningu á pólsku sem hluta af formlegu námi nemenda af pólskum uppruna í íslenskum skólum.

Margt er vel gert í skólakerfinu og víðar í samfélaginu í vinnu með tvítyngdum nemendum, en það eru líka margar áskoranir. Mikil þekking hefur byggst upp í einstökum skólum hér á landi á tiltölulega stuttum tíma en það vantar heildarstefnu til að betri árangur náist og að nemendur njóti sambærilegrar þjónustu og réttinda. Hlutverk starfshópsins, sem nú hefur verið skipaður, er að koma að stefnumótun í málaflokknum og gera tillögur að leiðum til úrbóta í námi og kennslu sem taki mið af fjölbreyttum hópi nemenda frá ólíkum menningarheimum. Þetta er löngu tímabær vinna. Það þarf faglega forystu og faglegan stuðning við skóla til að raunverulegar umbætur verði.