149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

Jafnréttissjóður Íslands.

570. mál
[15:01]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. nefnd fyrir að hafa farið yfir málið og lagt það fram eins og það liggur fyrir núna. Ég held að það hafi verið gerðar skynsamlegar breytingar. Þetta eru líka skynsamlegar stjórnkerfisbreytingar á þessum mikilvæga sjóði.

En ég vil ítreka það sem kom fram hér í gær, að ég tel æskilegt að það fari fram heildstæð úttekt á því hvernig við skipuleggjum okkar framlög varðandi rannsóknir og þróun í tengslum við jafnréttismál til að geta gert þetta jafnvel enn skilvirkara en nú er.

Síðan vil ég jafnframt undirstrika það sem kom fram í máli hæstv. forsætisráðherra um fulltrúa ráðuneytisins, eða forsætisráðherra — að það verði haft samráð við alla stjórnmálaflokka um skipun fulltrúans.

En að sjálfsögðu styð ég þetta mál. Það er framvinda í þessu máli og þróunin er góð. En það er eitt og annað sem við þurfum síðan að fara enn betur yfir.