149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[15:34]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Fyrst af öllu vil ég segja að það er enginn sem neyðir stjórnvöld til að samræma regluverk sitt. Skuldbindingarnar sem við erum að ræða hér voru gerðar án allra þvingana af hálfu Evrópusambandsins. Það voru íslensk stjórnvöld sem tóku ákvörðun um að ganga til samninga við Evrópusambandið með einu skilyrði, að lifandi dýr yrðu ekki flutt til landsins. Að öðru leyti var bara frjáls för landbúnaðarafurða og fleira þess háttar. Það er fyrst og fremst sú skuldbinding sem við erum að staðfesta hér, því að þessi samningur var leiddur í lög landsins árið 2009. Reglugerð nr. 89/662 var samþykkt í sameiginlegu EES-nefndinni árið 2007 með 18 mánaða aðlögunartíma. Hún var leidd í lög með samþykkt Alþingis árið 2009. Frá þeim tíma hefur Ísland notið allra hagsbóta af þessu samkomulagi, en óskir samningsaðilans hafa ekki verið fullnustaðar. Út á það ganga dómarnir. Þannig að það er enginn sem neyðir okkur til að gera þetta.

Sérstaðan er vissulega mikil. En ég bendi á vegna ótta — eða umhyggju — hv. þingmanns fyrir íslenskum búfjárstofnum, sem ég deili vissulega með honum, að það er mat okkar færasta fólks, okkar sérfræðinga á þessu sviði, að hætta á sýkingum í búfjárstofnum við að aflétta frystiskyldunni sé engin. Við erum bara í sömu stöðu. Enda erum við að flytja inn það sem kallað er hrátt kjöt. Það bara er frosið. 4.000 tonn árið 2017. Málið snýst fyrst og fremst um að aflétta því (Forseti hringir.) sem kallað er frystiskyldan og (Forseti hringir.) standa við þær skuldbindingar sem við leiddum í lög.