149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[16:33]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans andsvar. Ég gleðst yfir því að honum hafi fundist ræða mín góð, sérstaklega fyrri hlutinn, það fannst mér líka. [Hlátur í þingsal.]

Ég vil bara segja hv. þm. Birgi Þórarinssyni að ég vildi sannarlega geta valið að vera ekki í þessari stöðu.

En efnislega, vegna þeirra tveggja atriða sem hann spurði um, vil ég aðeins hnykkja á því að sýklalyfjaónæmið var ekki á sama stað í umræðunni árið 2005 og það er núna og frystiskyldan hefur í sjálfu sér ekki áhrif á sýklalyfjaónæmu bakteríurnar, nema þá er kemur síðan að því að meðhöndla matvöruna sem þiðna vöru í samhengi við aðrar.

En það eru líka fleiri þættir og þeir tengjast líka hlutum eins og salmonellu og kampýlóbakter, góðri og ábyrgri meðferð matvæla. Þannig að frystiskyldu og sýklalyfjaónæmi er ekki hægt að setja samasemmerki á milli.

Þess vegna fagna ég sérstaklega þeim orðum hæstv. ráðherra í hans framsögu þegar hann sagði frá fundi sínum með framkvæmdastjórninni þar sem ég veit að aðstæður okkar, vegna lágrar tíðni sýklalyfjaónæmra baktería, vöktu athygli. Og ég er bjartsýnn á að það verði hægt að vinna með það áfram.

Varðandi seinna atriðið er hann nefnir, um heimildir okkar til að beita sérstökum reglum, er það eitt af ákvæðum þessa frumvarps að við munum innleiða hér í reglur þau ákvæði sem heimilt er að innleiða samkvæmt matvælalöggjöfinni, um að beita skyndilokunum eða skyndiflöggun, komi upp alvarlegir búfjársjúkdómar sem við þurfum að verjast. Það hefur verið meginröksemd fyrir frystiskyldunni. Í raun og veru hefur hún ekki gert annað en gefa okkur þennan 30 daga frest. Við höfum í raun og veru allt annað vöktunarkerfi og eftirlit með búfjársjúkdómum í dag. Þess vegna skiptir heimildin (Forseti hringir.) til flöggunar og innflutningsbanns mjög miklu máli og hana erum við að innleiða hér.