149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[16:52]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er ekki langur tími til stefnu í sjálfu sér. Við höfum mjög öflugt eftirlitskerfi í dag. Það er skimað fyrir öllu mögulegu varðandi framleiðslu í íslenskum landbúnaði og við höfum mjög sterka stofnun, Matvælastofnun, og aðra aðila sem fylgjast grannt með heilbrigði íslenskrar framleiðslu svo að ég tel að það sé ekki vandamál.

Auðvitað munum við í atvinnuveganefnd kalla til alla þá sérfræðinga sem munu fjalla um þetta mál og koma að því að framfylgja því sem þar kemur fram. Þegar ég talaði um það háar girðingar að ekki væri sjálfgefið að allir gætu flutt inn eins og þeir vildu af hráu kjöti var það myndlíking. Ég er ekki að tala um að við gerum eitthvað sem stenst ekki lög. Í dag erum við brotleg. Við höfum, samkvæmt hæstaréttardómi og dómi EFTA, brotið lög. Það er veruleikinn og þeir sem flytja inn kjöt eru í rétti til að gera það.

Við erum að brjóta á þeim aðilum miðað við óbreytt ástand, það er hinn kaldi veruleiki sem við verðum að glíma við. Ég tel að það verði bara skoðað hvort við þurfum frest á þessari tímasetningu. Ég held að fullur vilji sé til þess að vinna það hratt og örugglega í málinu að við getum sett fram og unnið eftir þessari aðgerðaáætlun sem er listuð upp til að mæta því að íslenskur landbúnaður muni keppa á jafnræðisgrundvelli og við séum ekki að flytja inn landbúnaðarvörur sem eru framleiddar með þeim hætti sem við sættum okkur ekki við miðað við okkar kröfur.