149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[17:32]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað styð ég allar aðgerðir sem hafa að markmiði að efla matvælaöryggi, tryggja vernd búfjárstofna og bæta samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu. Það eina sem ég leyfði mér var að draga fram þær áhyggjur sem liggja sem rauður þráður í gegnum umsagnirnar sem fyrir liggja.

Ég geri mér fulla grein fyrir því hvað þeir dómar sem liggja fyrir í málinu, og þá ekki síst dómur Hæstaréttar Íslands, valda miklum erfiðleikum. Ég leyfi mér hins vegar að segja það, hafandi vakið máls á því í svari við andsvar hv. þingmanns, að fullvalda þjóð hefur á valdi sínu pólitískar og diplómatískar aðgerðir og á að beita þeim eftir fremsta megni þegar þannig stendur á sem hér um ræðir.

Ég tel afar mikilvægt að þeir hagsmunir sem hér eru undir séu varðir. Ég geri ekki lítið úr þeim mikla vanda sem þessir dómar, erlendur dómstóll annars vegar og Hæstiréttur hins vegar, skapa stjórnvöldum. Ég leyfði mér sömuleiðis að segja að það hlýtur auðvitað að vera, og ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka undir þau sjónarmið, meginverkefni á vettvangi hv. atvinnuveganefndar að fjalla mjög rækilega um aðgerðaáætlunina, hversu langt þessar aðgerðir ná og hversu líklegt er að þær komist til framkvæmda í tæka tíð.