149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[18:40]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, lögum um matvæli og lögum um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru (innflutningur búfjárafurða). Ég ætla mest að fjalla um greinargerðina og umsagnir í þessari ræðu.

Með frumvarpinu er lagt til afnám núverandi leyfisveitingakerfis við innflutning á tilteknum landbúnaðarafurðum. Markmið breytinganna er að íslensk stjórnvöld standi við þær alþjóðlegu skuldbindingar sem Ísland hefur undirgengist enda mikilvægt fyrir íslensk stjórnvöld að virða skuldbindingar sínar samkvæmt EES-samningum, dómi EFTA-dómstólsins um túlkun hans og dómi Hæstaréttar Íslands.

Aðgerðaáætlun til mótvægis í tengslum við frumvarpið sem og framlenging áðurnefnds frumvarps er viðbragð stjórnvalda við niðurstöðu Hæstaréttar Íslands frá 11. október 2018 og EFTA-dómstólsins frá 14. nóvember 2017. Niðurstaða dómanna var að núverandi leyfisveitingakerfi við innflutning á kjöti og eggjum og krafa um frystingu kjöts brjóti í bága við skuldbindingar Íslands samkvæmt EES-samningnum.

Umrætt leyfisveitingakerfi felur í sér að óheimilt er að flytja inn kjöt og egg hingað til lands nema með tilskilinni heimild Matvælastofnunar, með beiðni um slíkt innflutningsleyfi. Hverri vörusendingu þarf að fylgja vottorð um að vörurnar hafi verið geymdar við a.m.k. -18°C í einn mánuð fyrir tollafgreiðslu. Aðgerðaáætlunina, sem er í tólf liðum, munum við í atvinnuveganefnd, en sá sem hér stendur er í atvinnuveganefnd, fara vel yfir og velta þar við hverjum steini.

Í umsögn með frumvarpinu frá Bændasamtökum Íslands kemur m.a. fram, í sambandi við 13. gr. EES-samningsins, að fræðimenn hafa bent á að rökrétt sé að halda því fram að samningsaðilar hafi mátt treysta að 13. gr. samningsins myndi gilda orðum samkvæmt þrátt fyrir samning um aukið viðskiptafrelsi á kostnað sjónarmiða um heilbrigði manna og dýra. Bændasamtökin hafa ítrekað bent á að vísindaleg rök stjórnvalda í málflutningi sínum fyrir dómstólum, um áhættu vegna aukins innflutnings á framangreindum afurðum, hafi ekki verið dregin í efa. Aðstaða íslensks landbúnaðar til að keppa við erlenda framleiðslu getur ekki talist jöfn og greinin býr yfir ýmiss konar sérstöðu sem auðvelt er að glata.

Sérfræðingar hafa bent á að afnám takmarkana á innflutningi, svo sem frystiskyldu, muni þýða verulega aukna áhættu á ýmsum sviðum fyrir heilsu manna og dýra. Matarsýkingum fjölgi og meiri hætta verði á að hingað berist bakteríur sem eru ónæmar fyrir sýklalyfjum. Engin önnur Evrópuþjóð skimar jafn vel fyrir kampýlóbakter, enda er árangur Íslands í þeirri baráttu talinn öfundsverður. Sýkingar af völdum bakteríanna eru algengustu matarsýkingar í Evrópu. Sýkingar af völdum baktería sem ónæmar eru fyrir sýklalyfjum eru taldar eitt alvarlegasta heilbrigðisvandamál í heiminum í dag. Sterk tengsl eru á milli þessa og sýklalyfjanotkunar í landbúnaði en samkvæmt gögnum frá Lyfjastofnun Evrópu, frá árinu 2015, er sýklalyfjanotkun í landbúnaði í Evrópu allt að 88 sinnum meiri en hér á landi, þar sem hún er mest í Evrópu. Þá er óumdeilt að innlendir búfjárstofnar hafa búið við langa einangrun og aldrei komist í snertingu við smitefni margra búfjársjúkdóma sem eru landlægir í Evrópu og víðar. Berist hingað smit er líklegt að það geti valdið miklu tjóni með ófyrirséðum afleiðingum. Þá hefur íslenskur landbúnaður ekki aðgang að neinum tryggingasjóði vegna tjóns af völdum búfjársjúkdóma eins og er fyrir hendi innan ESB, að frátöldum bótagreiðslum vegna niðurskurðar í sauðfé.

Eftir þessa 1. umr. gengur frumvarpið til atvinnuveganefndar þar sem sá er hér stendur á sæti og munum við fara vel ofan í saumana á þessu máli. Þótt hv. þm. Brynjar Níelsson hafi talað um að þetta væri ekki stórmál þá lít ég á þetta sem stórmál. Ég segi: Þetta er heilbrigðismál. Við verðum að vinna úr þessu sem best íslenskum landbúnaði til heilla. Þetta er líka forvarnamál þar sem við verðum að sporna við þeim sjúkdómum sem þessu kunna að fylgja. Í mínum huga er þetta það stórt mál að ekki er hægt að tala um það í einhverjum þeim tón að um smámál sé að ræða.

Við stöndum frammi fyrir því að þurfa að bregðast við þessum dómi og viðbrögðin felast m.a. í þessu frumvarpi. Þetta er viðamikið frumvarp, einar 40 bls. Farið er vel ofan í saumana á hinum ýmsu atriðum með alls konar greinargerðum og öðru slíku, og þannig munum við vinna í atvinnuveganefnd. Ég held ég segi þetta gott að sinni og ræði betur um þetta síðar