149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[19:05]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, lögum um matvæli og lögun um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru, innflutning búfjárafurða. Í daglegu tali kallast þetta frumvarp um afnám frystiskyldu á hráu kjöti og hefur verið rætt út frá ýmsum sjónarmiðum í salnum í dag síðan þingfundur hófst.

Margrét Guðnadóttir, fyrrverandi prófessor í sýklafræði við Háskóla Íslands, lét hafa eftir sér í viðtali við Morgunblaðið fyrir réttum tveimur árum síðan að það væri ræfildómur að reyna ekki að halda landinu hreinu. Í máli eins og þessu geta verið miklar tilfinningar uppi. Menn telja að þarna sé staðan þannig að verði gerð mistök verði ekki svo auðveldlega aftur snúið með þau eða undið ofan af þeim. Ég held að við sem hér erum og horfum til þeirrar reglusetningar sem nú er unnið að verðum að nálgast málið á þann hátt að leita allra leiða til að tryggja sem öruggast umhverfi fyrir innlenda matvælaframleiðslu hér eftir sem hingað til. Þá er auðvitað fremst í röðinni að gefa ekki neitt eftir af þeim réttindum sem við höfum í dag.

Menn greinir á um hvort leitað hafi verið allra þeirra leiða sem færar eru til að viðhalda undanþágum eða réttindum okkar til að takmarka flæði á hráu, ófrosnu kjöti til að mynda, ógerilsneyddri mjólk og hráum eggjum til landsins. Ef við horfum í átt til þess sem almenningi hugnast best þá sýna kannanir að almenningur treystir þeirri vinnu sem unnin hefur verið hingað til í málinu ekkert sérstaklega vel. Meiri hluti landsmanna er andvígur því að regluverkið, eins og það verður verði þetta frumvarp samþykkt óbreytt, gangi eftir. Almenningur hefur góða tilfinningu gagnvart innlendri framleiðslu matvæla, innlendum landbúnaðarafurðum, og vill setja á herðar okkur sem hér erum þá skyldu að leita allra mögulegra leiða til að vernda hann áfram.

Það er síðan athyglisvert að sjá nýjar kannanir þar sem liggur fyrir að rétt um 60% landsmanna vilja ekki opna þessar breytingar á meðan rétt um 30%, ef ég man rétt, eru áfram um það. Í sömu könnun var spurt hvort menn vildu sjá forseta Íslands vísa málinu til þjóðaratkvæðagreiðslu, fari það lítið eða óbreytt í gegn, og var meiri hluti landsmanna þeirrar skoðunar. Við þingmenn verðum að átta okkur á því að ábyrgð okkar er gríðarlega mikil. Maður upplifir — og nú vona ég að félagar mínir í stjórnarflokkunum á þingi reiðist ekki — eins og það sé eitthvert hópefli í gangi hjá ríkisstjórnarflokkunum, annars vegar gagnvart þessu máli sem snýr að afnámi frystiskyldunnar og hins vegar í tengslum við þriðja orkupakkann sem kemur væntanlega til umræðu í næstu viku. Þau mál eru einfaldlega þeirrar gerðar að allt of mikið er undir til þess að kasta til hendinni.

Málið sem við ræðum hér er margþætt. Það snýr m.a. að smitsjúkdómum og matvælaöryggi almennt. Það snýst um innlenda matvælaframleiðslu, það snýr að lýðheilsu og að innflutningi og mögulegum skaðabótum. Fyrst og fremst er þetta enn eitt fullveldismálið sem menn virðast ætla að vera litlir í sér gagnvart. — Þarna kemur, eins og einhvern tíma var sagt, ráðherrann í salinn. (Sjútvrh.: Ég er yfir 180.) Mér fipaðist aðeins þegar ráðherrann kominn í salinn og kallaði fram í fyrir mér. Það er allt í lagi.

Það hefur margoft verið sagt í dag að dómur hafi fallið og við honum þurfi að bregðast. Málið rekur sig auðvitað, eins og við þekkjum, aftur til ársins 2004 eða þar um bil og mætti eflaust teygja það að hluta til lengra aftur. Menn virðast mjög gjarnir á að hengja sig í það að þeir hafi ekki gætt að sér á fyrri stigum í stað þess að nálgast Evrópuregluverkið með kassann út og segja: Við ætlum okkur að ná að verja stöðu okkar þannig að óbreytt verði frá því sem nú er.

Ef við horfum til þeirra aðila sem mest eiga undir í málinu held ég að ekki halli á neinn á ósanngjarnan hátt ef ég lít fyrst til umsagnar Bændasamtakanna í þeim efnum. Bændasamtökin og félagsmenn þeirra eru uggandi yfir þessu og hafa verið lengi. Mín upplifun er sú að það bæti í áhyggjurnar frekar en að draga úr þeim því að sagt er við ætlum að leysa þetta allt saman með því að reisa veggi, tryggja að eftirlitið verði svo gott að ekkert smit komist inn fyrir varnarlínu okkar og að við getum vikið frá þeim reglum sem við nú styðjumst við án þess að hætta neinu hvað hreinleika afurða varðar.

Á sama tíma eru skilaboðin sem við lesum út úr fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar, sem liggur fyrir til næstu fimm ára, að ekki virðast ætlaðir neinir fjármunir í að styðja við þetta eftirlit sem á að bæta svona stórkostlega við. Þarna fer ekki saman hljóð og mynd og það setur að manni þann ugg að þetta verði allt í einhverju skötulíki 1. september þegar reglubreytingarnar eiga að eiga sér stað og að menn fljóti sofandi að feigðarósi. Það er alveg ljóst að án viðbótarfjárveitinga verður eftirlitið ekki í neinni þeirri stöðu að vinna gegn þeim áhrifum sem gætu komið fram ef hlutir fara á versta veg.

Ef ég gríp aðeins niður í umsögn Bændasamtakanna, með leyfi forseta, segir hér:

„Bændasamtökin hafa ítrekað bent á að vísindaleg rök stjórnvalda í málflutningi sínum fyrir dómstólum um áhættu vegna aukins innflutnings á framangreindum afurðum hafa ekki verið dregin í efa. “

Ef það er hægt að tala um kjarna málsins hvað röksemdir okkar gagnvart Evrópuregluverkinu varðar þá ætti þetta að vera kjarni málsins. Það er enginn sem efast um að hreinleikinn hér er þannig að menn komast upp í það að nota 88 sinnum meira af lyfjum í framleiðslu erlendis heldur en við horfum til hérna. Erlendis, í Evrópu í heild sinni, eru menn að glíma við um 120 dýrasjúkdóma á sama tíma og við erum að slást við um 20 hér heima.

Þetta eru gjörólíkir markaðir og framleiðslan er með allt öðrum hætti á nettum búum á Íslandi þar sem heilnæmi og hreinleiki og hollusta er fyrirrúmi samanborið við risaverksmiðjubú sem innlendri framleiðslu verður ætlað að keppa við hér eftir gangi málið fram eins og það hefur verið lagt fram af hæstv. landbúnaðarráðherra.

Ef ég held áfram með umsögn Bændasamtakanna, með leyfi forseta:

„Aðstaða íslensks landbúnaðar til að keppa við erlenda framleiðslu getur ekki talist jöfn og greinin býr yfir ýmiss konar sérstöðu sem auðvelt er að glata. Sérfræðingar hafa bent á að afnám takmarkana á innflutningi, svo sem frystiskyldu, muni þýða verulega aukna áhættu á ýmsum sviðum fyrir heilsu manna og dýra. Matarsýkingum fjölgi og meiri hætta verði á að hingað berist bakteríur sem eru ónæmar fyrir sýklalyfjum. Engin önnur Evrópuþjóð skimar jafn vel fyrir kampýlóbakter enda árangur Íslands í þeirri baráttu talinn öfundsverður en sýkingar af völdum bakteríanna eru algengustu matarsýkingar í Evrópu.“

Staðan hér heima er frábær og það er mikið á sig leggjandi til þess að verja hana.

Ég nefndi í byrjun að eitt af þeim atriðum sem málið snerist um væru skaðabætur. Annars vegar eru það skaðabætur sem verslunin virðist líta á orðið sem fastan tekjupóst hjá sér, að sækja í ríkissjóð eftir þeim kæruleiðum sem þar standa til boða. Hins vegar eru það atriði sem við verðum líka að horfa til, þ.e. ef allt fer á versta veg verður staða innlends landbúnaðar allt öðruvísi heldur en nú er, ekki bara markaðslega í þeim slag sem innlendum landbúnaði verður att í gagnvart erlendri verksmiðjuframleiðslu heldur líka vegna breyttrar stöðu hvað varðar sjúkdóma og allt sem þeim fylgir.

Með leyfi forseta ætla ég að taka eina tilvitnun til viðbótar úr umsögn Bændasamtakanna:

„Sýkingar af völdum baktería sem ónæmar eru fyrir sýklalyfjum eru taldar eitt alvarlegasta heilbrigðisvandamál í heiminum í dag. Sterk tengsl eru á milli þessa og sýklalyfjanotkunar í landbúnaði en samkvæmt gögnum frá Lyfjastofnun Evrópu frá 2015 er sýklalyfjanotkun í landbúnaði í Evrópu allt upp í 88 sinnum meiri en hér á landi, þar sem hún er mest.“

Þetta er sláandi staðhæfing sem þarna kemur fram og ekkert sem bendir til þess að ástæða sé til að draga hana í efa. Í gögnum, sem ég er reyndar ekki með hjá mér í augnablikinu en get kannski vísað í í síðari ræðu, er því haldið fram að um 33.000 manns látist á ári í Evrópu vegna matvælasýkinga. Ætli 33.000 samsvari ekki um 20 manns á ári á Íslandi, ef við yfirfærum þá tölu, sem er nokkurn veginn fjöldinn sem lætur lífið hér í bílslysum, því miður, jafn hræðileg og sú staða er.

Það er því til mikils að vinna að halda markaðnum eins hreinum og hægt er, landbúnaðarframleiðslunni sterkri, styðja við þá innlendu framleiðslu sem við höfum notið alla tíð og taka ekki óþarfa áhættu í þeim efnum.

Það kom upp fyrr í dag vangavelta varðandi hvort hægt væri, ef málið fer í gegn eins og það er lagt upp, að fresta gildistöku þess sem þar er tekið á. Ef slíkt kallar á ný málaferli frá versluninni er ágætt að það liggi fyrir að verslunin líti á málarekstur gegn ríkissjóði í því samhengi sem sjálfstæðan tekjustofn. Ég trúi ekki öðru ef menn sjá fram á að þurfa að vinna sér tíma, til að mynda til að tryggja varnirnar betur, eftirlitið og það allt saman, dragi þeir aðeins andann og sætti sig við að innleiðingin tefjist sem nokkru nemi. Ég hef enga trú á því að þeir sem harðast berjast fyrir innflutningnum hafi áhuga á því að valda innlendum landbúnaði vandræðum umfram það sem þegar er orðið. Ef menn finna ekki leið til þess að gjörbreyta nálguninni sem hér er lagt upp með held ég að menn verði alla vega að hafa það til hliðsjónar í allri vinnunni sem fram undan er í nefndinni hvort þeir leiti leiða til að fresta innleiðingunni til að gefa kerfinu svigrúm til að verjast þeirri vá sem fyrir dyrum er. Ég held að það sé sannarlega þess virði að halda til haga.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra að sinni. Ég vona að við finnum leið til að draga úr allri þeirri áhættu sem hér er lögð á kerfið og vinna málið í góðri sátt í þinginu.