149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[19:27]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Það má sennilega segja að þarna kristallist að einhverju marki munur okkar sem fyllum hóp þingmanna Miðflokksins annars vegar og Viðreisnar hins vegar gagnvart innlendum landbúnaði. Hv. þm. Þorsteinn Víglundsson virðist halda (ÞorstV: Við höfum trú á honum.) — nei, það er auðvitað þannig að ef hv. þm. Þorsteinn Víglundsson hefur ekki skilning á stórkostlega mismunandi aðstæðum til landbúnaðarframleiðslu á Íslandi, hér á norðlægum slóðum, samanborið við verksmiðjubúskap hér og þar í Evrópu, þá skýrir það auðvitað ýmislegt.

Það að vilja verja innlenda framleiðslu, bæði hvað varðar heilnæmi og hins vegar viðhalda þeim tollaviðmiðum sem horft hefur verið til og eru kannski að mörgu leyti ástæða til að bæta inn í því að þau hafa trappast niður jafnt og þétt. Þarna kristallast, að ég held, munur á tilfinningu þessara tveggja þingflokka fyrir innlendum landbúnaði.

Það hefur ekkert með það að gera að við í þingflokki Miðflokksins og ég höfum ekki trú á innlendum landbúnaði í samkeppni. Það að við viljum verja hann með þeim hætti sem við höfum talað fyrir hefur með það að gera að við höfum skilning á mismunandi aðstæðum innlendrar landbúnaðarframleiðslu annars vegar og verksmiðjubúskaparins sem hv. þingmaður og félagar hans í Viðreisn og margir aðrir eru áhugasamir um að etja honum saman við. Enda er sá verksmiðjubúskapur ríkisstyrktur af miklum móð úti í Evrópu.